Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[19:11]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Svo að það komi skýrt fram þá efast ég ekki á nokkurn hátt um baráttu hv. þingmanns fyrir jöfnun búsetuskilyrða á landinu, enda kemur hún líka úr mínu góða kjördæmi, er 1. þingmaður þess kjördæmis og ég styð hana heils hugar í öllum málum sem leiða til jöfnunar búsetuskilyrða. Mín breytingartillaga leiðir einfaldlega af því að þegar ég skoða frumvarpið þá sé ég að lögfesting frumvarpsins hefur ekki nein fjárhagsáhrif á ríkissjóð. Ríkið er ekki að fara að setja neina peninga í þetta sem skipta máli, það eru 50 milljónir árlega samkvæmt útgjaldasvigrúmi á málefnasviði 15, um orkumál, og það sem eftir stendur af ráðstöfun fjárheimilda á málefnasviði 17, um umhverfismál, sem ætlaðar eru til orkuskipta. Ég vil bara stíga stærra skref varðandi styrkinn, taka hann úr helmingi upp í 75% og að hámarki upp í 1,5 milljónir. Það er minn vilji og ég tel að það myndi auka stórlega kaup á varmadælum og leiða til þess að allir sem vilja muni hafa getu til að kaupa varmadælur. Það er eflaust alveg hárrétt að flestir taka jarðvarma fram yfir varmadælur. En þó að við hækkum styrkinn upp í 75% leiðir það ekki til þess að fólk hætti að taka jarðvarmann. Það breytir því ekki. Ég vil bara að ríkið komi sterkara inn með styrkina, setji meiri pening í þetta sem leiðir til þess að styrkurinn verði 75% og 1,5 millj. kr. Ég tel að það sé raunverulega það sem landsbyggðin og þessi köldu svæði eiga inni hjá ríkissjóði, sérstaklega í ríkisstjórn sem ætlar að innleiða umhverfisvæna orkugjafa og græna orku og fara að taka virkilega á varðandi orkuskiptin. (Forseti hringir.) Ég tel þetta ekki vera stórmál, það er smámál fyrir ríkissjóð að gera þetta. (Forseti hringir.) Ég fagna þessu frumvarpi heils hugar og ég tel það til verulegra bóta á allan hátt.