Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

587. mál
[19:52]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F):

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér í dag snýr að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, (lenging lánstíma). Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að lengja lánstíma lána sem Ferðaábyrgðasjóður hefur veitt til ferðaskrifstofa til að endurgreiða neytendum vegna pakkaferða sem var aflýst eða voru afbókaðar vegna óvenjulegra eða óviðráðanlegra aðstæðna sem sköpuðust í upphafi kórónuveirufaraldursins. Lán voru veitt til allt að sex ára en með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að lengja lánstímann til allt að tíu ára.

Ferðaábyrgðasjóður var settur á fót með lögum nr. 78/2020, um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, til að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi skipuleggjenda eða smásala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar og til að tryggja hagsmuni neytenda.

Víðtækar ferðatakmarkanir voru á þessum tíma settar í flestum Evrópulöndum og Norður-Ameríku og flug víða felld niður. Ómögulegt var því að koma fjölda pakkaferða í framkvæmd samkvæmt áætlun. Í þeim tilvikum sem pakkaferð er aflýst eða afpöntuð vegna óvenjulegra eða óviðráðanlegra aðstæðna á neytandi rétt á fullri endurgreiðslu innan 14 daga frá því tilkynnt var um afleysingu ferðarinnar eða hún afpöntuð. Lausafjárstaða ferðaskrifstofa á þessum tíma var hins vegar með þeim hætti að margar þeirra áttu erfitt með að endurgreiða neytendum og til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot ferðaskrifstofa var Ferðaábyrgðasjóði komið á fót með lögum nr. 78/2020. Sjóðurinn veitti ferðaskrifstofum lán til að endurgreiða ferðamönnum vegna pakkaferða sem var aflýst eða afbókaðar. Alls voru veitt 54 lán að heildarfjárhæð rúmlega 3,2 milljarðar kr. Ferðaábyrgðasjóður er í vörslu Ferðamálastofu sem fór með eftirlit með því að lánsfjárhæðir væru aðeins nýttar í þeim tilgangi sem lögin heimiluðu. Lántakendur skyldu endurgreiða Ferðaábyrgðasjóði höfuðstól kröfu sjóðsins ásamt vöxtum að allt að sex árum og skyldu gjalddagar vera fjórir hvert ár. Fyrsta afborgun skyldi vera 1. mars 2021.

Með reglugerð nr. 56/2021 og breytingu á reglugerð nr. 78/2020 var fyrsta gjalddaga frestað til 1. desember 2021 og með reglugerð nr. 1038/2021, um breytingu á reglugerð 78/2020, var fyrsta gjalddaga aftur frestað til 1. desember 2022. Ástæða þess að fyrsta gjalddaga hefur verið frestað í tvígang er að neikvæðra áhrif kórónuveirufaraldursins á ferðaþjónustu hefur gætt lengur en fyrirsjáanlegt var. Til að styðja við viðspyrnu ferðaþjónustunnar og stuðla að bættu rekstrarhæfi ferðaskrifstofa hér á landi er því nauðsynlegt að heimila að lengja í lánstíma lánanna og dreifa þannig endurgreiðslum yfir lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi.

Virðulegur forseti. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar kom fram að ferðaskrifstofur þurfi aukið svigrúm til að endurgreiða þau lán sem þeim var veitt en við ákvörðun sex ára tímatakmarks, með lögum 78/2020, hafi litið út fyrir að kórónuveirufaraldurinn myndi ekki hafa þau langtímaáhrif sem svo varð. Viðspyrna ferðaþjónustunnar hafi þannig orðið hægari en vonir stóðu til og óvissuástandið varað lengur.

Í umsögn Ferðamálastofu var m.a. bent á að aukin dreifing afborgana sé mikið hagsmunamál fyrir lántakendur en langstærsti hluti þeirra hafi nýtt sér frestun fyrstu afborgana. Lenging lánstíma og viðsnúningur ferðaþjónustunnar mun án efa auka greiðslugetu lántakenda þegar fram líða stundir. Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa hvöttu til þess að frumvarpið yrði samþykkt.

Líkt og kemur fram í greinargerð frumvarpsins hefur fyrsta gjalddaga lána Ferðaábyrgðasjóðs verið frestað í tvígang þar sem neikvæðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á ferðaþjónustuna hefur gætt lengur en fyrirsjáanlegt var. Fyrsti gjalddagi er 1. desember 2022. Þar sem lánstími breytist ekki samhliða frestun gjalddaga auk þess sem viðspyrna ferðaþjónustunnar hefur verið hægari en vonir stóðu til er ljóst að greiðslubyrði lántakenda verður mjög mikil á fyrsta gjalddaga að óbreyttu. Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um að eitt af markmiðum laga nr. 78/2020 hafi verið að aðstoða ferðaskrifstofur í því erfiða rekstrarumhverfi sem leiddi af heimsfaraldri.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur nefndin nauðsynlegt að lengt verði í lánstíma þeirra lána sem Ferðaábyrgðasjóður veitir og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifa, auk þess sem hér stendur, Gísli Rafn Ólafsson, Hildur Sverrisdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Tómas A. Tómasson, Þórarinn Ingi Pétursson og Haraldur Benediktsson.