Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

grunnskólar.

579. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta (Jóhann Friðrik Friðriksson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp um samræmd könnunarpróf. Með frumvarpinu er lagt til að afnema tímabundið skyldu til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf í grunnskólum, til og með 31. desember 2024.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir um málið. Greint er frá því í nefndaráliti og liggur það frammi. Rétt er að geta þess að eftir að nefndin afgreiddi málið bárust tvær umsagnir frá Barnaheillum og umboðsmanni barna. Þær eru aðgengilegar á vef þingsins ásamt öðrum umsögnum en þær gefa ekki tilefni til breytinga eða breytinga á afstöðu til málsins.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega mikilvægi þess að farið verði í heildarendurskoðun á samræmdu námsmati með hagsmuni og þarfir nemenda að leiðarljósi. Það er markmiðið að veita skólum, nemendum og foreldrum betri upplýsingar um stöðu nemenda. Jafnframt sé mikilvægt að tryggja gott samráð við hagsmunaaðila við þá vinnu. Með vísan til þeirra umsagna sem fyrr var getið er rétt að árétta að börn eru hagsmunaaðilar og hafa rétt á því að taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku í öllum málum sem þau varða samkvæmt 12. gr. barnasáttmálans.

Frú forseti. Fyrir liggur skýrsla mennta- og menningarmálaráðuneytisins um framtíðarstefnu um samræmt námsmat sem kom út 2020. Þar má líta tillögur starfshóps um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa og er ætlunin að líta til þeirrar vinnu við endurskoðunina. Ýmis rök eru fyrir því að fresta samræmdum prófum en flestum er ljóst að útfærsla prófanna eins og þau eru í dag hefur runnið sitt skeið. Upp hafa komið tæknileg vandamál við framkvæmd prófanna og gagnrýni á fyrirkomulag þeirra. Því er mikilvægt að innleiða nýtt samræmt námsmat sem fyrst. Í umsögn um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sambandið styðji eindregið að framkvæmd samræmdra könnunarprófa verði frestað og að tíminn verði nýttur til að vinna að hönnun og innleiðingu nýs samræmds námsmats í samstarfi við hagsmunaaðila.

Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálit þetta rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Kári Gautason, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Logi Einarsson.