Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar, og nær allir þingmenn í nefndinni sem skrifa undir þetta álit, en hér er um að ræða aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025.

Meiri hlutinn telur aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025 vera jákvætt og mikilvægt skref varðandi það að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks í samfélaginu. Við áframhaldandi vinnu og innleiðingu þeirra verkefna sem tilgreind eru í áætluninni þurfi að leita eftir víðtæku samráði við hagsmunaaðila auk þess sem mikilvægt sé að hverri aðgerð verði tryggt fjármagn. Meðal annars var fjallað um það fyrir nefndinni að margar aðgerðir í áætluninni hefðu beina þýðingu fyrir sveitarfélögin og leggur Samband íslenskra sveitarfélaga því áherslu á að það fái aðkomu að útfærslu þeirra aðgerða og vinnuhópa sem fyrirhugað er að setja á fót til að ná tilsettum markmiðum, auk þess sem þær aðgerðir sem snúi að sveitarfélögum verði kostnaðarmetnar. Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar og að mikilvægt sé að vinna að innleiðingu þeirra aðgerða sem varða sveitarfélögin í góðri samvinnu við þau.

Í aðgerðaáætluninni er tekið á nokkrum þáttum, m.a. er fjallað um reglugerð um heilbrigðisþjónustu þar sem markmið aðgerðanna er að skýra betur hlutverk teymis barna- og unglingageðdeildar Landspítala um kynvitund þegar kemur að þjónustu við einstaklinga sem falla undir lögin og hvaða sérfræðiþjónustu sé nauðsynlegt að tryggja þeim sem leita eftir þjónustu teymisins. Í greinargerð með tillögunni kemur meðal annars fram að brýnt sé að skýra stöðu barna yngri en 16 ára þegar óskir koma fram um óafturkræfar breytingar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. laganna.

Í umsögn frá BUGL – barna- og unglingageðdeild Landspítalans og fyrir nefndinni kom fram að trans teymi BUGL legði mikla áherslu á að vinna við slíka reglugerð færi fram sem allra fyrst og að fulltrúar teymisins kæmu að þeirri vinnu. Fram kom að það væri mikilvægt að skilgreina tiltekin atriði nánar sem byggjast á ákvæðum laga um kynrænt sjálfræði, svo sem að skilgreina hvaða hópum verði vísað í þjónustu trans teymis BUGL og hvað skuli falla undir annars vegar afturkræfar og hins vegar óafturkræfar aðgerðir. Meiri hlutinn telur mikilvægt að horfa til þeirra þátta sem fram koma í umsögninni þegar þessi aðgerð áætlunarinnar kemur til framkvæmdar, sem er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins.

Í aðgerðaáætluninni er fjallað um reglugerð um blóðgjafir. Í 18. lið áætlunarinnar er mælt fyrir um að gerðar verði breytingar á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV við þá reglugerð, með það að markmiði að horfið verði frá því að bann við blóðgjöf tengist kynhneigð einstaklinga.

Í umsögnum og fyrir nefndinni var fjallað um þetta mál sérstaklega og fengum við sóttvarnalækni og Blóðbankann til að koma til okkar og ræða þetta mál. Blóðbankinn var á því að það þyrfti að tryggja fjármögnun til að innleiða svokallaða NAT-skimun og smithreinsun rauðkorna. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram komu fyrir nefndinni um að ávallt skuli hafa að leiðarljósi að tryggja öryggi blóðþega. Jafnframt sé mikilvægt að byggja á málefnalegum sjónarmiðum varðandi það hverjir geti gerst blóðgjafar og tímabært sé að fara í þær breytingar sem aðgerðaáætlunin felur í sér hvað þetta varðar.

Undir þessum lið sköpuðust örugglega opinskáustu umræður sem átt hafa sér stað um kynlíf á nefndasviði Alþingis þar sem ítrekað var mikilvægi þess að þegar um blóðgjafir er að ræða og ákveðna áhættuþætti þar að lútandi þá snúi það að kynhegðun en ekki kynhneigð.

Nefndin leggur til tvær breytingartillögur við aðgerðaáætlunina, annars vegar um málefni hinsegin eldri borgara og öryrkja. Við fjölluðum um þetta sérstaklega og óskuðum eftir afstöðu forsætisráðuneytisins og í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar vakti ráðuneytið athygli á verkefni norrænu ráðherranefndarinnar um lífsgæði eldra fólks innan hinsegin samfélagsins að frumkvæði Noregs sem nú fer með formennsku, en verkefnið er unnið í samstarfi við Ísland sem tekur við formennsku í nefndinni á næsta ári. Áfram verði unnið með þetta verkefni og nefndin var mjög ánægð að heyra af þessu verkefni þar sem við erum sannfærð um að það muni bæta þjónustu við eldra hinsegin fólk. Niðurstaða nefndarinnar var einmitt að leggja til breytingu hvað þetta varðar og ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir að koma með þá tillögu sem við sammæltumst öll hér um og er breytingin tilgreind sérstaklega í þessu nefndaráliti.

Jafnframt er gerð breyting um lið sem fjallar um stöðu hinsegin fólks á landsbyggðinni og það er líka breytingartillaga sem kom frá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni. Ég vil líka geta þess að hv. þm. Jódís Skúladóttir hefur talað sérstaklega fyrir þessu máli og gerði það í umfjöllun nefndarinnar. Staða hinsegin fólks á landsbyggðinni kann að vera viðkvæm, ekki síst fyrir ungmenni. Við umfjöllun í nefndinni um málið var komið inn á þennan þátt og telur meiri hlutinn þörf á að bregðast við með því að leggja til að við þingsályktunartillöguna bætist nýr liður sem feli í sér aðgerðir með það að markmiði að rannsaka líðan og stöðu hinsegin fólks á landsbyggðinni út frá samfélagslegum þáttum og sjónarmiðum um jöfn búsetuskilyrði í landinu. Huga þurfi að aukinni fræðslu og aðgengi að stuðningi á landsbyggðinni. Í framhaldi af þeirri úttekt sem mælt er fyrir um komi til skoðunar að útfæra og framkvæma frekari aðgerðir sem talin er þörf á til að jafna stöðu hinsegin fólks um land allt.

Ég hef hér, virðulegur forseti, hlaupið yfir nefndarálitið sem liggur fyrir og þar eru breytingartillögur sem gert er grein fyrir í nefndarálitinu okkar, fyrst og fremst þessar sem ég tilgreini, en líka einhverjar sem eru meira tæknilegs eðlis.

Undir þetta nefndarálit skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Jódís Skúladóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Logi Einarsson. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, lýsir sig samþykkan áliti þessu.