Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[21:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og góð orð í minn garð. Ég tek undir að það voru mjög líflegar umræður um kynhneigð og kynhegðun í nefndinni og við fórum mjög ítarlega yfir það atriði varðandi tengslin við Blóðbankann og blóðgjöf. Ég ætla nú ekki að fara að endurtaka þá umræðu, um 17. tölulið aðgerðaáætlunarinnar, en það er náttúrlega mjög mikilvægt að öllum líði vel við blóðgjöf og það er spurning um nákvæmni spurninga.

En mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi fjármögnun á aðgerðaáætluninni. Nú kemur fram í 1. töluliðnum að það sé kostnaðaráætlun upp á 40 milljónir, en svo er alltaf talað um í hinum töluliðunum að kostnaður rúmist innan fjárheimilda og það er svolítið óljóst hvað það þýðir. Ég óttast að þessi mikilvæga aðgerðaáætlun gæti verið undirfjármögnuð. Hvernig verður fjármagn tryggt til þessarar aðgerðaáætlunar og hvað er átt við með því að kostnaður rúmist innan fjárheimilda? Er það þá fjárheimilda í fjárlögum hverju sinni? Er ekki mikilvægt að þingið tryggi fjármagn til að standa vel að þessari aðgerðaáætlun? Ég tel einnig mjög mikilvægt að þessi aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks verði gerð á forsendum hinsegin fólks og helst af hinsegin fólki. Það komi að vinnu þessarar aðgerðaáætlunar með beinum hætti og helst leitað sérstaklega eftir því að það vinni þessa aðgerðaáætlun á sínum eigin forsendum, ég tala nú ekki um varðandi breytingartillögurnar, nái þær fram að ganga, varðandi líðan (Forseti hringir.) hinsegin öryrkja og aldraðra og hins vegar líðan hinsegin fólks á landsbyggðinni.