Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[21:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vonandi að hún skýri betur þetta „innan fjárheimilda“. Það er þá ekki verið að taka af þessum 1. lið, þar sem kostnaðaráætlun er upp á 40 millj. kr., það fari ekki á hina liðina heldur komi raunverulega fjármagn frá ríkinu til að framkvæma aðgerðaáætlunina.

Annað sem mér finnst líka vera mikilvægt hérna er varðandi breytingartillöguna um málefni hinsegin eldri borgara og öryrkja eins og kemur fram í greinargerðinni. Þarna erum við að tala um fólk sem ruddi eiginlega brautina í réttindabaráttu hinsegin fólks. Það er mjög mikilvægt, tel ég, að gerð verði úttekt á líðan hinsegin fólks og hún skoðuð út frá samfélagslegum þáttum, eins og er lagt til í breytingartillögunni, og líka líðan fólks á landsbyggðinni. Hér erum við í borgarsamfélaginu á höfuðborgarsvæðinu og hægt að týnast í fjöldanum hérna í Reykjavík en í minni samfélögum er oft erfiðara að vera hinsegin og öðruvísi. Ég tel þetta vera mjög mikilvægt atriði og ég vona að hv. þingmaður taki undir þetta vegna þess að frjálslyndi Reykjavíkur þyrfti að komast út um allt land, að öllum líði vel þó að þau séu kannski hinsegin og í litlum plássum og öðru slíku.

Ég ætla ekki hafa þetta lengra en ég bíð spenntur að heyra betur frá hv. þingmanni og framsögumanni varðandi fjármagnið sem fer í þetta og þessi atriði sem ég nefndi.