Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[21:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir þá vinnu sem þau hafa lagt í þessa mikilvægu þingsályktunartillögu. Þetta er svo sannarlega að vissu leyti metnaðarfull tillaga um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks og það er virkilega gott að sjá að það á að taka á fullt af atriðum sem því miður þarf að taka á í samfélaginu. Það er líka gott að það eru settar tímaáætlanir og skilgreind ábyrgð á þeim verkefnum sem eru sett inn hérna. En mig langar að taka undir áhyggjur hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar og það sem hann benti á varðandi fjármögnun á þessum hlutum. Það að nota sífellt í svona aðgerðaáætlun orðalagið „rúmist innan fjárheimilda“ — það er voða erfitt að rekja þetta, hversu mikið fjármagn á að setja í hvert og eitt atriði og þá getum við ekki séð hvað þessi aðgerðaáætlun í rauninni kostar í heild sinni. Það er númer eitt. Í öðru lagi, það að við sjáum ekki hvað aðgerðaáætlunin kostar í heild sinni gefur okkur líka ekki möguleika á því að skilja hversu djúpt á að fara í hvert og eitt atriði.

Mig langar að taka eitt dæmi um það. Ég get sennilega ekki orðað það eins vel og það var orðað í umsögn sem kom frá Trans Ísland og varðar 16. og 17. lið aðgerðaáætlunarinnar. 16. aðgerð fjallar um verklagsreglur teymis Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum en 17. aðgerðin fjallar um reglugerð um heilbrigðisþjónustu í tengslum við kynvitund og kynrænt sjálfræði. Mig langar að lesa beint upp úr umsögn Trans Ísland, því ég tók ekki eftir því að um þetta hefði verið fjallað sérstaklega í nefndarálitinu. Þau sögðu, með leyfi forseta:

„Trans Ísland telur það ekki nægja eitt og sér að trans teymin, bæði á BUGL og LSH, setji sér verklagsreglur sem verði samþykktar. Þörf er á auknu fjármagni til teymanna sem og frekari mönnun, en biðlistar á báðum stöðum hafa lengst á undanförnum árum og er staðan óviðunandi. Þörf er á inngripum sem stytta biðlistana sem hafa myndast. […] . Nauðsynlegt er að trans börn og unglingar fái strax þá þjónustu sem teymið veitir enda er þetta viðkvæmur hópur sem þarf að koma til móts við á þeirra forsendum.“

Þá horfum við á það sem tengist kynvitund og kynrænu sjálfræði og ef við horfum á lið 16 og 17 þá stendur einfaldlega að kostnaðaráætlun rúmist innan fjárheimilda. Þarna hefði maður viljað sjá að það væri t.d. lagt fjármagn í að ráðast á þessa biðlista og tækla það, en það sjáum við ekki í aðgerðaáætluninni eins og er.

Ég geri mér grein fyrir því að það er kannski erfitt að breyta þessu núna en almennt í svona aðgerðaáætlunum finnst mér vera rosalega erfitt að átta sig á því hversu mikið eigi að gera eða hvað sé verið að gera. Það er hægt að gefa falleg loforð. Það er hægt að segja: Við ætlum að laga ferlana, við ætlum að laga reglugerðirnar. En ætlum við að laga vandamálið sem er að það er orðin ansi löng bið eftir þessari þjónustu? Ég er samt ekki að setja út á sjálfa áætlunina, mér finnst hún vera mjög metnaðarfull og það er verið að taka á mörgum góðum hlutum.

Mig langar að fagna þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar gerir, annars vegar um líðan hinsegin öryrkja og aldraðra og hins vegar líðan hinsegin fólks á landsbyggðinni. Ég tel að báðar þessar breytingar séu mjög af hinu góða. Reyndar er hver og ein aðgerð hérna mjög af hinu góða en það er erfitt fyrir okkur að skilja hverju er í rauninni verið að lofa. Við getum reynt að læra svolítið af því varðandi framtíðaraðgerðaáætlanir sem við gerum, að við reynum að hafa þær aðeins skýrari þannig að fólkið sem þetta snertir, les ekki á vef Alþingis á morgun þegar við erum vonandi búin að samþykkja þessa þingsályktunartillögu, haldi ekki að nú sé bara búið að tryggja allt sem snýr t.d. að málefnum trans barna, en við séum kannski ekki búin að því. Ég er bara að tala um það að við þurfum að hugsa svolítið út í það að þegar við gerum svona áætlanir og setjum okkur markmið, þá þurfum við að vera dálítið skýr hvað þetta varðar.

Svo vona ég bara að við reynum að tækla það sem vantar upp á skimunina í blóðgjöfinni. Við heyrðum í morgun í útvarpinu að það er mikill skortur á blóði hjá Blóðbankanum og það er fólk í þessum hóp sem vill gefa blóð og sem getur gefið blóð, uppfyllir þau skilyrði sem eru sett fyrir utan þetta eina sem er í dag, þ.e. kynhneigðin er tilgreind í reglugerð. Vonandi getum við gert gangskör að því og lagað þetta fljótt og auðveldlega.

Mig langar að enda á því að þakka nefndinni aftur fyrir frábært og gott starf í þessu og ég veit að þetta eru allt hlutir sem munu bæta líf þess fólks sem þetta snertir og það sendir eflaust þakkir til ykkar um það.