Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[21:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langaði bara að koma inn á þennan punkt sem hann veltir upp varðandi fjármögnun og það sem fram kom í umsögn þar að lútandi. Hér er nefndur þessi ákveðni punktur, 16. markmiðið í áætluninni, sem er um verklagsreglur teymis Landspítalans um kynvitund og breytingar á kyneinkennum. Þá langar mig, með leyfi forseta, að lesa síðari hluta þess sem segir um þessa aðgerð í ályktuninni:

„Mikilvægt er að tryggja að þjónusta við trans fólk byggist ávallt á nýjustu rannsóknum og vinnureglum á alþjóðavettvangi. Teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum sem skipað er samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði skal setja sér verklagsreglur sem uppfylla þessi skilyrði með það að markmiði að trans fólk fái viðeigandi og fordómalausa þjónustu.“

Ég vil ítreka þetta sérstaklega vegna þess að það var nú umræða ekki alls fyrir löngu um einmitt þetta og ég held að þess vegna sé mjög mikilvægt að þessi punktur sé hérna inni, að verklagsreglur um slíkt byggi á nýjustu rannsóknum og þekkingu í þessum málaflokki, að allir starfsmenn í heilbrigðisþjónustunni þekki þær og fylgi slíkum verklagsreglum. Að því sögðu þá snýr þessi punktur bara að verklagsreglunum en það er hárrétt hjá hv. þingmanni, og það sem fram kom í umræddri umsögn sem hann vísaði í, að það eitt og sér er ekki nóg til að tryggja þjónustu til þeirra sem þurfa svo sannarlega á þessari mikilvægu þjónustu að halda. Þar erum við komin að einhverju leyti að fjármagninu en ekki síður að því sem við erum að horfa upp á í íslensku heilbrigðiskerfi, sem er skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Ég veit að í þessum málaflokki hefur vandamálið til að mynda verið það að það hefur verið allt of mikil starfsmannavelta. Fólk hefur komið og stoppað stutt við, sem er mjög bagalegt því að í þessu byggist upp svo mikil reynsla og þekking sem skiptir svo miklu máli þegar kemur að gæðum þjónustunnar. (Forseti hringir.)

Að þessu sögðu þá ítreka ég að þetta er mikilvægur málaflokkur sem snertir heilbrigðiskerfið okkar allt en ef við ætluðum að leysa þessi risastóru vandamál, (Forseti hringir.) sem eru vandamál heilbrigðiskerfisins í vestrænum löndum og þótt víðar væri leitað, þá myndum við væntanlega aldrei getað samþykkt þingsályktunartillögu sem þessa. (Forseti hringir.) Þess vegna held ég að þetta sé mikilvægt skref þótt ég taki undir það sjónarmið hv. þingmanns að það þarf líka að gera betur á hinum vettvanginum.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímamörk.)