Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[22:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Tillagan sem hér er til umræðu, aðgerðaáætlun um málefni hinsegin fólks 2022–2025, er mikilvægt innlegg í umræðuna varðandi hinsegin fólk og leið til að rétta stöðu þess fólks í samfélaginu. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksdóttur, frá Viðreisn, fyrir innlegg sitt í umræðuna hér áðan, sérstaklega það sem hún sagði um líðan hinsegin barna og ungmenna í skólum, sem fjallað er um í 7. tölulið, og þær sögur sem hún rakti varðandi stöðu hinsegin barna og ungmenna í skólum, varðandi félagsmiðstöðvar og hvernig staðan væri hjá þessum börnum.

Þessi þingsályktunartillaga kom fyrir allsherjar- og menntamálanefnd sem ég á sæti í. Ég skoða hana í samhengi við önnur mál sem komu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd, t.d. frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna (fjölgun mismunarþátta), og þá finnst mér bæði þessi mál vera svolítið af sama meiði. Þar er fjallað um áreitni, þar er t.d. skilgreining á áreitni. Ef ég skoða það mál í samhengi við aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks þá minnir það mig alltaf á það að Ísland er ekki eins frjálslynt og við höldum að það sé. Það er ekki eins umburðarlynt og við höldum að það sé og einelti og útskúfun er landlæg í landinu. Ef einhver er aðeins öðruvísi, ef hann er hinsegin og ef hann fellur ekki alveg inn í hópinn, þá er hann í mjög mikilli hættu á að verða fyrir einelti og útskúfun. Ég tel að þessi aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks sé einmitt til að koma í veg fyrir þetta einelti og þessa útskúfun. Það sama á við um fjölgun mismunarþátta varðandi jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Við erum að reyna að búa til rammalöggjöf og fara í aðgerðaáætlun til að koma í veg fyrir að hinsegin fólk verði fyrir einelti og útskúfun í samfélaginu. Það er undirliggjandi vandi í íslensku samfélagi sem verður ekki leystur með lögum og reglum, en það gæti verið að aðgerðaáætlun, sem hér er lagt til að farið verði í í málefnum hinsegin fólks, gæti stuðlað að minnkandi einelti og útskúfun. Þetta er ákveðið samfélagsvandamál. Ef maður hefur samanburð við önnur samfélög þá er einfaldlega bara meiri harka í íslensku samfélagi að mörgu leyti sem ég tel að eigi m.a. rætur að rekja til þess að það er einfaldlega meiri hætta á að fólk lendi í fátækt en í öðrum norrænum ríkjum og verði útundan. Það er líka fámennið, við erum einangrað samfélag. Og þó að við séum að vissu leyti stórt samfélag hér í Reykjavík, nokkur hundruð þúsund manns, þá er þetta samfélag þar sem allir þekkja alla og allir eru ótrúlega líkir þegar öllu er á botninn hvolft. Við erum mjög „homogeneous“ samfélag, svo að ég sletti ensku hugtaki yfir það.

Ég fagna þessari aðgerðaáætlun að mörgu leyti og tel að hún sé mjög góð. Ég fagna sérstaklega breytingartillögunum sem eru lagðar fram í nafni allrar nefndarinnar um að könnuð verði líðan hinsegin öryrkja og aldraðra og hinsegin fólks á landsbyggðinni. Ef ég fer yfir einstaka liði í aðgerðaáætluninni tel ég 7. liðinn mjög mikilvægan, sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksdóttir fjallaði um. Ég tel að sá þáttur ætti jafnvel að geta fengið meira vægi en aðrir liðir ef út í það er farið þó að mikilvægt sé að framfylgja þeim öllum.

Ég tek líka dæmi varðandi 6. liðinn, þar er fjallað um hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Það er gott að heyra söguna hjá hv. þingmanni í ræðunni á undan um æskulýðsmiðstöð hinsegin fólks, hinsegin ungmenna.

Aðeins varðandi umræðu um 16. lið verklagsregluteymis Landspítala, um kynvitund og breytingar á kyneinkennum, sem var til umræðu fyrr í kvöld, þá tek ég heils hugar undir það sem framsögumaður benti á, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, sem kemur fram í greinargerð um 16. aðgerð áætlunarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að tryggja að þjónusta við trans fólk byggist ávallt á nýjustu rannsóknum og vinnureglum á alþjóðavettvangi.“

Þetta er grundvallaratriði þegar kemur að þessum málaflokki í 16. lið. Hér var talað um biðlista og annað slíkt sem eru langir, en það er markmið með 16. liðnum að setja verklagsreglur sem byggist á nýjustu rannsóknum í málaflokknum, að þær verði notaðar. Í umræðum í nefndinni vitnaði ég til frétta af sænskri skýrslu í þessum málaflokki sem er mikilvægt gagn, tel ég, og nýjustu rannsóknir þaðan. Ég vísa einnig til umsagnar BUGL varðandi 16. töluliðinn sem ætti að hafa að leiðarljósi hér.

Varðandi reglugerð um blóðgjafir — ég get ekki annað en tjáð mig aðeins um það. Það var mikil umræða um það í nefndinni. Markmið aðgerðanna er að afnema mismunun sem blóðgjafar hafa sætt á grundvelli kynhneigðar. Fulltrúar blóðbankans komu fyrir nefndina og vildu meina að þeir rannsökuðu einungis kynhegðun. En það er mjög mikilvægt að öllum sem gefa blóð, og ég hef oft gefið blóð í Noregi og verið spurður þar um kynhegðun, hvort sem það er hinsegin fólki eða öðrum, líði vel við þá blóðgjöf og sé ekki á nokkurn hátt mismunað á grundvelli kynhneigðar. En það er hins vegar rannsökuð kynhegðun sem er mismunandi hættuleg varðandi blóðgjöf eða gæði blóðs og áhættuþætti hvað það varðar.

Varðandi utanríkisstefnu, 19. liðinn, um áherslu á réttindi hinsegin fólks, þá telja íslensk stjórnvöld að á alþjóðavettvangi sé tilvalið að tala máli hinsegin fólks eða leggja áherslu á það þegar rætt er um mannréttindi. Við höfum haft kvenréttindi framarlega í málflutningi okkar á alþjóðavettvangi þegar talað er um mannréttindi. Réttindi hinsegin fólks í heiminum — við erum fremst í flokki í þeim heimshluta þar sem þau eru hvað best virt. Ég þarf ekki að rekja það hvernig staða þessa fólks er í mörgum heimshlutum. Það er mikilvægt að Ísland tali rödd sinni þar. Íslensk stjórnvöld hafa átt sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og ég hef lesið greinar, í stórblöðum eins og New York Times og öðrum stórblöðum, um að rödd Íslands sé sterk á þessu sviði — „Iceland is pushing about its weight“ eins og það var orðað, þegar við vorum í þessu merkilega ráði, t.d. varðandi stöðu fólks á Filippseyjum og í öðrum ríkjum. Við eigum svo sannarlega erindi í það ráð aftur og þá gætum við líka talað máli hinsegin fólks.

Ég spurði hv. framsögumann, Bryndísi Haraldsdóttur, um fjárheimildirnar, hvort ekki sé rétt fjármagnað. Við eigum bæði sæti í fjárlaganefnd og munum reyna okkar besta hvað það varðar. Ég tel að þetta sé málefni ríkisins. Þetta er aðgerðaáætlun sem ríkið stendur að og þá á ríkið að fjármagna þetta, ekki láta þetta koma niður á fjárhag sveitarfélaga.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Hinsegin samfélagið á Íslandi er lítið og að mörgu leyti viðkvæmt. Hinsegin fólk á skilið virðingu og þarf á vernd og auknum réttindum að halda. Barátta hinsegin fólks, rétt eins og önnur jafnréttisbarátta, er í stöðugri þróun og lýkur seint eða aldrei.“

Ég er sammála því og ég tel líka að þetta sé réttindabarátta sem þurfi að viðhalda, eins og á við um alla aðra réttindabaráttu, og ég fagna því að öll nefndin hafi tekið undir breytingartillöguna, að við séum öll sammála um þessa breytingartillögu varðandi rannsókn á líðan hinsegin fólks, líðan hinsegin öryrkja, aldraðra. Ég tel mjög mikilvægt að gera úttekt á stöðu þessa hóps og skoða það út frá samfélagsþáttum og markmiðum um jafna stöðu öryrkja og aldraðra í samfélaginu. Eins og kemur fram í greinargerðinni þá er eldra fólkið í dag fólkið sem stóð í réttindabaráttunni, sem braut múrinn og ruddi brautina. Það er mikilvægt að kanna stöðu þess í dag og að því sé sýnd sú virðing sem það á skilið; þetta er aldursskeið sem allir ættu að fá að njóta sín á allan hátt.

Ég tel það líka aðra mikilvæga breytingartillögu að gera úttekt á líðan hinsegin fólks á landsbyggðinni. Ég kem sjálfur úr landsbyggðarkjördæmi og það er allt önnur staða á landsbyggðinni en í Reykjavík. Þú getur ekki horfið í fjöldann eins og hér í bænum. Ég vona innilega að þessi aðgerðaáætlun verði framkvæmd á forsendum hinsegin fólks, helst af hinsegin fólki og auki umræðu um stöðu hinsegin fólks á landsbyggðinni og líðan hinsegin öryrkja og aldraðra. Það er líka komið inn á þetta í töluliðum varðandi landbúnaðinn sem talað var um fyrr í kvöld og í sjávarútvegi. Það er mikilvægt að þetta nái til allra samfélagsþátta. Annað sem skiptir líka máli er að þetta snýst um að hinsegin fólk sé sýnilegt í íslensku samfélagi, sýnilegt í umræðunni og sýnilegt á sem flestum stöðum í samfélaginu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri í bili en ég tel að þessar breytingartillögur ættu að ná fram að ganga og að málið verði samþykkt. Vonandi verður þetta hinsegin fólki til framdráttar hér á landi og ég vona að með nægjanlegu fjármagni verði séð til þess að þessi aðgerðaáætlun verði ríkinu til sóma.