Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Mig langaði bara rétt í lokin að þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls undir þessu málefni og tek undir hvert einasta orð um mikilvægi málaflokksins og mikilvægi þess að bæði við sem hér sitjum en ekki síður þeir sem vinna í stjórnsýslunni séu með þessi gleraugu á sér í sínum aðgerðum. Ég held að þessi aðgerðaáætlun sé mjög mikilvægt skref í þeim efnum.

Mig langar að taka sérstaklega upp punktinn sem hv. þingmaður Hanna Katrín Friðriksson nefndi hérna áðan um umræðu sem hafði verið í fjölmiðlum nýverið um líðan hinsegin ungmenna. Það var sjokkerandi að hlusta á þær fréttir og heyra sögur ungmennanna. Mig langar að hrósa þessum ungmennum, sem eru algjörar hetjur, fyrir að koma fram í sjónvarpi og segja frá sinni reynslu og svo langar mig líka að hrósa fjölmiðlum fyrir að vekja okkur hin til umhugsunar um þessi málefni. Ég held að það sé einmitt líka hluti af þessu að þegar svona á sér stað séu færðar af því fréttir og það veki okkur, bæði foreldra og almenna þegna í landinu, til umhugsunar um að það líði ekki öllum jafn vel, eins mikilvægt og okkur finnst að byggja upp þetta jafnréttissamfélag.

Mig langar þá, þessu tengt, að benda á aðgerðalið nr. 7, um líðan hinsegin barna og ungmenna í skólum, en þar er talað um að það eigi að gera úttekt á líðan hinsegin barna í skólakerfinu og hún verði samþætt við rannsóknir á líðan skólabarna og unnar tillögur um úrbætur á grundvelli niðurstaðna. Þessi liður var og er sérstaklega mikilvægur en fær mann til að hugsa, í ljósi þessara frétta, enn þá meira um hversu mikilvægt það er. Það kemur líka fram í markmiði nr. 6, sem tengist fræðsluefni um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta, tómstunda og æskulýðsstarfi, en það tengist líka punktinum sem hv. þingmaður nefndi. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson að við hreykjum okkur gjarnan af því að vera besta jafnréttissamfélag í heimi. Það er hluti af utanríkisstefnunni okkar, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson kom inn á, og við höfum verið stolt af því að vera það þjóðfélag þar sem jafnrétti er hvað mest. Það á líka við um málefni hinsegin fólks, ekki bara á milli þessara hefðbundnu karla og kvenna heldur okkar allra, og við eigum að vera í fararbroddi.

Og þá langar mig líka að nýta tækifærið sem ég hef oft nýtt hér, að þegar við þingmenn förum á erlenda grund þá eigum við að nýta þau tækifæri sem gefast til að tala um þessi málefni, leggja áherslu á það sem við höfum talað fyrir í okkar utanríkisstefnu, sem eru einmitt jafnréttismál. Þessi aðgerðaáætlun á að vera til þess að færa okkur enn nær því að tryggja hér jafnrétti allra.