Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl.

531. mál
[23:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, fjármögnun skilasjóðs, iðgjöld og fyrirkomulag Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá árinu 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, svokallað BRRD sem ekki hafa þegar verið innleidd. Breytingar varða fjármögnun skilasjóðs auk breytinga á iðgjöldum og starfsemi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, hér nefnt TIF. Þá felur frumvarpið í sér leiðréttingu á innleiðingu í lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Óvissu er eytt um lausafjárfyrirgreiðslu sem gera má ráð fyrir að hægt verði að fá hjá Seðlabankanum samkvæmt skilaáætlunum fjármálafyrirtækja.

Nefndin fjallaði um málið, fékk gesti á sinn fund og umsagnir bárust. Greint er frá því í nefndaráliti.

Meiri hlutinn leggur til breytingar á a-lið 13. gr. frumvarpsins þess efnis að lánafyrirtækjum verði bætt við greinina og að auki verði kveðið á um að þau skuli eiga aðild að innstæðu og/eða verðbréfadeild sjóðsins, enda hafi þau staðfestu hér á landi. Er breytingartillögunni ætlað að koma til móts við athugasemd í umsögn Seðlabanka Íslands sem nefndinni barst við vinnslu málsins.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Tilgangurinn með frumvarpi þessu er að innleiða í íslenskan rétt þau ákvæði í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2014/59/ESB um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sem ekki hafa þegar verið innleidd. Um er að ræða þriðja og síðasta áfanga innleiðingar á tilskipuninni en meginefni hennar hefur áður verið innleitt, annars vegar með lögum nr. 54/2018, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og hins vegar með heildarlögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. Umfjöllunarefni frumvarpsins er annars vegar fjármögnun skilasjóðs og hins vegar breytingar á iðgjöldum og starfsemi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Vert er að geta þess að BRRD er nú þegar fullinnleidd hér á landi að undanskildum fjórum greinum, þ.e. 103.–106. gr. tilskipunarinnar sem fjalla um fjármögnun og lánamál skilasjóðs. Nauðsynlegt er að ljúka innleiðingu á BRRD þannig að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Samhliða þeirri innleiðingu er æskilegt að huga að innbyrðistengslum milli innstæðutrygginga, þar með talið starfsemi TIF, og skilameðferðar, þar með talið skilasjóði, og er það gert með endurskoðun á greiðslum iðgjalda í TIF og nokkrum öðrum atriðum sem varða fyrirkomulag þess sjóðs, þar með talið heiti sjóðsins og skipan stjórnar. BRRD var tekin upp í EES-samninginn 9. febrúar 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018. Vert er að minnast á að Eftirlitsstofnun EFTA hefur hafið formlega málsmeðferð vegna tafa Íslands við að innleiða tilskipunina að fullu. Í kjölfar innleiðingar á BRRD eiga fjármálafyrirtæki að vera betur í stakk búin til að standa af sér rekstrarerfiðleika og minni líkur eru á að ríkissjóður þurfi að leggja til fé þannig að áframhaldandi mikilvæg starfsemi þeirra verði tryggð. Ýmsar nýjar reglur á bankamarkaði eiga að renna styrkari stoðum undir starfsemi fjármálafyrirtækja og með því draga úr líkum á að reyni á innstæðutryggingar. Má í því samhengi nefna auknar kröfur um magn og gæði eigin fjár, auknar kröfur um laust fé og stöðuga fjármögnun, auknar kröfur til áhættustýringar og stjórnarhátta og möguleika Fjármálaeftirlitsins til að takmarka ákveðna starfsemi, svo sem innlánasöfnun erlendis.

Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt og eftir tilfærslu fjármuna verður innstæðudeild meðal stöndugustu innstæðutryggingarsjóða á Evrópska efnahagssvæðinu og eignir deildarinnar rúmlega 49% af tryggðum innstæðum lánastofnana sem ekki teljast kerfislega mikilvægar. Þá verða bæði deild skilasjóðs og innstæðudeildin ríflega tvöfalt stærri en áskilnaður er gerður um samkvæmt Evrópureglum.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.