Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

afgreiðsla rammaáætlunar úr nefnd.

[11:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Rammaáætlun var núna lögð fram í fjórða skipti, af fjórða umhverfisráðherranum. Hún var fyrst lögð fram, þessi áfangi rammaáætlunar, árið 2016. Aldrei hefur umfjöllun verið lokið, m.a. vegna gagnrýni þeirrar sem hér stendur. Hv. þingmaður sleppti því að nefna að í sömu ræðu, eða í mörgum öðrum sem fluttar voru við sama tilefni, benti ég til að mynda á að í nýtingarflokki væru kostir eins og Skrokkalda inni á miðju hálendi sem þyrfti augljóslega að skoða betur út frá hugmyndum um mögulegan miðhálendisþjóðgarð og út frá þeirri landslagsheild sem þar er að finna og ósnortnum víðernum.

Þar ræddi ég líka, í þessum ræðum, af því að ég man þær nú ágætlega, um virkjanir í neðri hluta Þjórsár og þá staðreynd að samfélagsleg áhrif af þeim virkjunum hefðu ekki verið metin með fullnægjandi hætti. Og hver er tillaga meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessum efnum? Jú, það er að færa nákvæmlega þessa kosti í biðflokk af því að þá þurfi að meta betur.

Vissulega er líka verið að leggja til færslu á kostum úr verndarflokki í bið. En verðum við ekki einfaldlega að horfast í augu við það, Alþingi, að við höfum ekki náð saman um þennan áfanga rammaáætlunar í þau þrjú skipti sem hann hefur verið lagður fram? Verðum við ekki að taka það til opinskárrar umræðu að líklega eru þetta of margir kostir til að geta tekið afstöðu til þeirra í einu ef marka má þessa sögu, sem ég tek alvarlega? Þetta eru sex ár sem við höfum verið að ræða þetta mál og þetta þarf ekki að koma jafn mikið á óvart og einhverjir hv. þingmenn telja í ljósi þess að í stjórnarsáttmála er sérstaklega talað um að eðlilegt sé að horfa til þess að biðflokkur verði stækkaður þannig að þetta sé gert í minni áföngum.

Hv. þingmaður nefnir hér Skaftá og Skjálfandafljót sem eru í verndarflokki. Og af því að hv. þingmaður spyr um Vinstrihreyfinguna – grænt framboð þá held ég að það sé ágætt að rifja það upp að ýmis svæði eru ekki undir í þessari áætlun, t.d. ekki þau tíu svæði sem voru friðlýst á tíma Vinstri grænna í umhverfisráðuneytinu, sem eru auðvitað líka mikil tímamót í þessari umræðu.