Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

geðheilbrigðismál eldra fólks.

[12:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Nýleg skýrsla ríkisendurskoðanda um geðheilbrigðismál hefur lyft umræðu um þann málaflokk á eilítið hærra plan en áður og lyft undir málaflokkinn, sem er mjög mikilvægt. Í þinginu var til að mynda umræða um þetta mál í vikunni er leið. Það vekur hins vegar athygli hvað geðheilbrigðismál eldra fólks virðast fá lítið rými og litla athygli í þessari skýrslu. Svona stórt séð er kannski vikið að þessu í einni heilli málsgrein í þessari, ef ég man rétt, rúmlega 80 blaðsíðna skýrslu. Nú eru 14 ár frá því að síðast var gerð atlaga að því, raunveruleg atlaga, að stofna öldrunargeðdeild á Íslandi. Það var árið 2008, rétt fyrir hrun. Svo kom hrunið og ekkert gerðist. En það hafa margir heilbrigðisráðherrar verið síðan og margar ríkisstjórnir en einhvern veginn virðumst við enn vera að bíða eftir þessari 20 rúma öldrunargeðdeild, sem m.a. er talað um í þessari skýrslu að vanti.

Þá er spurning mín til hæstv. ráðherra þessi: Hyggst ráðherra beita sér sérstaklega til þess að við látum nú loksins verða af því að svona deild verði stofnuð og þá með hvaða hætti? Og í öðru lagi: Hvaða hindranir sér hæstv. ráðherra sérstaklega í veginum fyrir því að við látum raunverulega verða af þessu? Er það til að mynda kostnaðurinn við slíka deild eða fjármögnun sem stendur í veginum eða eru þetta meira skipulagslegir þættir og ég tala nú ekki um þættir sem snúa að mönnun slíkrar deildar?