Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

geðheilbrigðismál eldra fólks.

[12:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það er gott að heyra að hæstv. ráðherra hefur áhuga á þessum málaflokki. Það er engu að síður þannig að núna hafa, eins og ég nefndi, fjölmargir heilbrigðisráðherrar komið að verki frá því að þessar hugmyndir komu fyrst fram. Það eru líklega meira 20 ár síðan þessar hugmyndir komu fyrst fram. Einhverra hluta vegna hefur Landspítalinn ekki lagt áherslu á þetta eða þá ráðuneyti heilbrigðismála. Alla vega hjökkum við svolítið í þessu sama fari. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að hugsa aðeins út fyrir boxið og hugleiða til að mynda: Kæmi það til greina af hálfu hæstv. ráðherra að fá samstarf við einhver hjúkrunarheimilanna um að taka að sér að reka slíka deild, á svipaðan hátt og gert er nú þegar — það eru samningar við a.m.k. tvö eða þrjú hjúkrunarheimili um slíkan rekstur — þegar um er að ræða varanlega vistun? Telur hæstv. heilbrigðisráðherra slíkt koma til greina?