Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langaði til að spyrja hæstv. formann fjárlaganefndar: Útskýrir þessi fjármálaáætlun í raun og veru fyrir okkur stefnu stjórnvalda þegar allt kemur til alls? Ég hefði búist við því að þau vandamál sem við glímum við svona almennt séð — við erum að glíma við undirliggjandi halla í fjármálum hins opinbera, það er tvímælalaust vandamál í heilbrigðiskerfinu varðandi bara allt kerfið; bráðamóttökuna og allt yfir í hjúkrunarmálin, húsnæðismálin, málefni eldra fólks, málefni öryrkja, auðlindamál, álag á fjölsótta staði núna eftir að ferðamenn eru farnir að koma aftur í miklu meira mæli en var búist við strax í kjölfar faraldursins. Velflest af því sem talið var upp í nefndaráliti hv. formanns fjárlaganefndar var í raun endurtekning á því sem ákveðið var á síðasta kjörtímabili og fjármálaáætlun fjallar um að rosalega miklu leyti. Það er rosalega lítið nýtt. Það er í rauninni ekkert fjallað um þessi stóru samfélagslegu vandamál, stöðu þeirra og hvernig stefna stjórnvalda ætlar að gera þá stöðu betri og þá hvernig betri, en bara svona almennt orðasalat um að það muni nú stuðla að hinu og þessu. En það er ekkert sem er haldbært til að skilja hvernig fjármagn er sett fram til að leysa þessi vandamál og hvað við fáum fyrir það fjármagn sem við setjum í þessa málaflokka. Það vantar algerlega þær útskýringar. Mig langaði bara að spyrja þá formann fjárlaganefndar: Er það ásættanlegt að við fáum svona plagg frá ríkisstjórninni sem útskýrir í rauninni ekki neitt fyrir neinum? Það voru margir gestir sem töluðu einmitt um það, og fjármálaráð talaði líka um það, að gagnsæi í þessari fjármálaáætlun væri ekkert.