Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni hv. fjárlaganefndar fyrir greinargóða framsögu. Mig langar til að beina þeirri spurningu til hv. formanns hvort hún sé sammála fullyrðingum hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um að heilbrigðiskerfið sé fullfjármagnað eftir yfirlestur okkar á þessari áætlun. Á fundum þar sem gestir komu til okkar og í umsögnum hefur komið fram, í þessum birtu umsögnum, að það vanti heilt prósent upp í raunvöxt í rekstrargjöldum til Landspítalans til að halda hlutunum í horfinu. Það kemur líka fram í umsögnum að nýir þjónustusamningar við hjúkrunarheimili séu ekki fullfjármagnaðir og að fjórðungur af legurýmum á Landspítalanum sé nýttur í öldrunarþjónustu þrátt fyrir að það sé í rauninni ekkert skilgreint hvert umfang öldrunarþjónustu Landspítalans eigi að vera. Svo höfum við líka séð og það hafa verið birtir opinberlega útreikningar sem sýna þróun fjárframlaga til Landspítalans ef tekið er mið af launaþróun, hjúkrunarþyngd og þess háttar. Þar kemur fram að það var rétt svo fyrir Covid að það var unnið upp í fyrra horf eftir áralangan niðurskurð og miðað við í rauninni hjúkrunarþyngd og verkefni á spítalanum hafa framlög til spítalans hrunið. Við sjáum líka í umsögn fjármálaráðs að tekjur ríkissjóðs til að standa undir velferðarþjónustunni verða þær lægstu á öldinni sem bindur hendur ríkissjóðs þegar kemur að velferðarþjónustu. Þannig að mín spurning til formanns hv. fjárlaganefndar er hvar hún stendur í þessu máli. Vill hún meina að tekjustaða ríkissjóðs sé góð? Vill hv. formaður meina að það þurfi ekki meira fjármagn inn í heilbrigðiskerfið? Er heilbrigðisstarfsfólk með ranghugmyndir um hvað gengur á í heilbrigðiskerfinu? Og telur hv. formaður fjárlaganefndar að forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar sé sú rétta?