Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er búin að tala mikið um jöfnun dreifikostnaðar í gegnum tíðina og við vorum nú saman í nefnd, ég og hv. varaformaður fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson, þar sem við vorum að ræða m.a. þessi mál. Það sem við þurfum að velta upp hér og höfum rætt mjög ítrekað eru einmitt þessar gjaldskrárhækkanir sem gjarnan verða. Þegar við erum alltaf að veita aukna fjármuni í dreifikostnað til að reyna að jafna þetta vilja þær gjarnan fara af stað, sem er auðvitað eitthvað sem við þurfum að reyna að koma í veg fyrir að gerist. Eins og hv. þingmaður segir, og vitnar í svarið sem við fengum, þá eru það heldur ekki háar fjárhæðir sem þyrfti að auka við til að vega upp á móti þessu og það er ráðherrans að skoða það. Það er reglugerðarbreyting, það þarf ekki lagabreytingunni á Alþingi, held ég alveg örugglega ekki miðað við hvernig ég skildi það, þannig að þar getur ráðherrann sannarlega brugðist við. Ég held að það sé eitthvað sem verði að gera því að annars er þetta bara höfrungahlaup: Við leggjum til aukna fjármuni og á móti hækkar gjaldskráin alltaf þannig að það næst aldrei jöfnun.