Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta (Guðbrandur Einarsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir hennar ræðu hér. Ég er nú einn af þeim sem er nýliði á þingi og er þar af leiðandi nýliði í fjárlaganefnd, ég sit þar sem áheyrnarfulltrúi. Ég tel mig nú hafa verið svona sæmilega samviskusaman nýliða í nefndinni og reynt að leggja mig fram við að skilja og átta mig á út á hvað þetta gengur allt saman en mér hefur gengið erfiðlega að ná utan um þetta sérstaka verkefni sem heitir fjármálaáætlun til 5 ára og á oft og tíðum erfitt með að skilja hreinlega hvernig fjármunum er ráðstafað. Mér leið nú aðeins betur þegar ég varð vitni að því að einn af umsagnaraðilum, sem voru fjölmargir, taldi sig ekki geta lesið það út úr fjárhagsáætluninni hver hlutur hans hóps yrði í þessari fjármálaáætlun, að þau sæju það bara ekki hvað þau fengju til að reka það verkefni sem þau voru að sinna. Svo heyrir maður um að verið sé að setja inn verkefni, niðurgreiðslur á virðisauka á bílum og endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu og maður sér ekki tölurnar hækka þannig að það er eins og það séu óþrjótandi uppsprettur skúffupeninga eða söfnunarsjóða sem virðist vera hægt að veita úr þegar ráðherrunum sýnist svo. Mér leikur forvitni á að vita og langar að spyrja hv. þingmann: Er ekki hægt að gera þetta með öðrum hætti? Það er talað um núna í nýjum aðgerðum að hægt sé að skera niður fjárfestingarpeninga af því að það sé svo mikið af fjárfestingarpeningum til sem liggi bara í skúffu.