Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi málaflokk 25, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, er lækkunin kannski vegna þess að eins og við þekkjum þá hefur fólki á örorku sem betur fer fækkað, við höfum aukið í endurhæfingarþjónustuna og það ber árangur. Ég held að það sé nú stærsta breytan í því. Síðan er það svo í fjárfestingarmálunum, eins og við þekkjum, því miður, að við höfum ekki jafnvel ekki getað mannað það sem við erum að byggja eða taka í notkun og því hefur hægt á því.

Varðandi prósentutölurnar sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. frá hvaða grunni verður miðað við um næstu áramót, þá ætla ég nú bara að játa það hér og nú að ég hafði ekki hugað að því. Mér fyndist eðlilegt að þegar þú ert kominn með 3% hækkun þá leggist það við grunninn og síðan taki það mið af því í framhaldinu, þ.e. að hann bætist við. Ég ætla ekki að fullyrða það en þetta er bara ágætis áminning og ég skal taka þetta með mér og mun vonandi eiga svar fyrir hv. þingmann fljótlega í því samhengi.