Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er aftur góð spurning. Formaður fjármálaráðs kom hér og minntist á að það væri skrýtið að miða alltaf við þjóðhagsspána, hagtölur þjóðhagsspár, eins og þær sveifluðust á næsta ári. Svo enda þær alltaf í einhverjum langtímahagvexti, það eru alltaf bara 2,5%, eftir þrjú eða fimm ár eða eitthvað svoleiðis. Það væri í rauninni óeðlilegt að reyna að taka hagtölurnar eins og þær eru á næsta ári, hvort sem þær eru lágar eða háar, og nota þær sem grunninn í fjármálaáætluninni af því að það ætti bara að nota meðaltalið, það ætti í rauninni alltaf bara að nota langtímahagvöxtinn. Þegar við gerum það þá fáum við kannski þessa greiningu sem oft hefur verið kvartað undan að vanti, þá sjáum við til lengri tíma hvort það er jafnvægi á rekstri hins opinbera eða ekki.

Núverandi greiningar segja okkur að það sé ekki, að við séum í mínus. Það er tiltölulega vel rökstutt af fjármálaráði en því hefur ekkert verið svarað neitt sérstaklega af stjórnvöldum, sem mér finnst mjög áhugavert. Það samhengi skiptir miklu meira máli í rauninni en heildarútgjöld og tekjur ríkisins sem við skiptum síðan pólitískt á milli málasviða. Þá kem ég inn á það sem ég var að benda á, að þar þurfum við að vita hver kostnaðurinn er við lögbundin verkefni á hverju málefnasviði því að þar er grunnurinn. Þar vitum við hver talan er. Og jú, jú, hún flöktir fram og til baka miðað við verðbólguspá og launaþróun o.s.frv., en við vitum hver grunnurinn er. Ef við vitum það þá getum við talað um stefnu stjórnvalda á miklu gagnlegri og pólitískari hátt.