Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það eru tveir kaflar til viðbótar sem mig langar að koma inn á í seinna andsvari mínu. Í fyrsta lagi er það 31. kafli á bls. 15, sem fjallar um húsnæðis- og skipulagsmál. Við þekkjum öll ástandið á húsnæðismarkaði undanfarin misseri og þá þróun sem þar hefur komið fram. Mig grunar að ég hafi meiri áhyggjur af lóðaframboðsáhrifunum en hv. þingmaður, en mig langar samt að spyrja hv. þingmann um skoðun hans á því hvaða áhrif lóðaskortur hefur almennt á húsnæðisverð út frá hagfræðilegum sjónarmiðum. Sömuleiðis langar mig að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hafi verið rætt í nefndinni er varðar fjármögnun þessara hópa sem ríkisstjórnin hefur verið að skipa núna undanfarið, þ.e. spretthóps matvælaráðherra varðandi aðgerðir í tengslum við rekstrarforsendur bænda og rekstrarskilyrði bænda og búa, og aðgerðahóps vegna bráðamóttöku Landspítalans. Var kostnaður vegna mögulegra aðgerða í þessum efnum ræddur á fundum fjárlaganefndar þannig að eitthvert hald væri í? Því að ég hef áhyggjur af að þessir hópar skili tillögum hver af öðrum án þess að nokkur forsenda sé til að framfylgja þeim.

Í seinna andsvari vil ég biðja hv. þingmann að koma örsnöggt inn á hagfræðileg sjónarmið sem snúa að lóðaskorti, af því að ég veit að það er sérstakt áhugamál okkar beggja, og sömuleiðis sjónarmið er varða fjármögnun tillagna þessa hópa sem ríkisstjórnin hefur verið að skipa núna í gríð og erg.