Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að höfða til míns hagfræðilega bakgrunns. Auðvitað liggur fyrir að skortur á vöru getur leitt til þess að verð hækki. Við þurfum þá að velta fyrir okkur hvers vegna skorturinn er til staðar. Er hann vegna þess að lóðum hefur ekki verið úthlutað eða vegna þess að þær eru ekki byggingarhæfar? Ganga þær mögulega kaupum og sölum á markaðnum? Um það hefur verið rætt um núna og var rætt um í tengslum við sveitarstjórnarkosningar, að það væri vissulega búið að úthluta nægilega af lóðum en hins vegar væri ekki farið að byggja þar. Þá erum við komin yfir í svona aukahagfræðilög, fjármálamarkaðshliðarveruleika húsnæðismarkaðarins. Eitthvað sem á í raun að vera grunnþörf er orðið svona spekúlatíf spákaupmennskueign í hagkerfinu þar sem setið er á lóðum og beðið eftir að breytingar verði þar á. (Gripið fram í.)

En hugmyndin er auðvitað sú að það þarf að vinna þessa stöðu á húsnæðismarkaði í sameiningu ríkis og sveitarfélaga og ég held að margir hafi bundið vonir við aðgerðahópinn sem var settur á laggirnar núna um daginn og kom með tillögur þar sem átti að liðka fyrir breytingu þar á. Ein hugmyndin var m.a. sú, til að koma í veg fyrir að hátt lóðaverð á sumum stöðum fari að öllu leyti út í verðlagið, að þeim lóðum sé úthlutað til óhagnaðardrifinna félaga sem geta þá fengið lóðir undir markaðsvirði án þess að hafa áhyggjur af því að muninum á markaðsvirðinu og verðinu sem þau fá sé stungið í vasann, heldur renni beint til þeirra sem þurfa að nýta húsnæðið. Það sem ég er svo ósátt við er að þessar tillögur, stofnframlagatillögurnar, eru ekki fjármagnaðar. Þetta sést ekki neins staðar í tillögum stjórnvalda.

Varðandi þessa aðgerðahópa. Ekki bar mikið á umræðu um þetta í fjárlaganefnd og það er í rauninni hægt að halda heila ræðu um þetta allt saman. En mig langar líka að koma inn á að óháð afleiddum kostnaði af þessum hópum, hver ætli kostnaður ríkissjóðs sé af þessum endalausu hópum og aðgerðahópum sem falla til, (Forseti hringir.) nú síðast 40–50 manns í sjávarútvegi, til að taka ákvörðun um mál sem við vitum að er ekki eining um innan ríkisstjórnarinnar, (Forseti hringir.) til þess eins að komast að þeirri niðurstöðu eða halda að teknókratar geti leyst pólitísk vandamál?