Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fyrir andsvarið. Ég held við getum alveg verið sammála um hvert endamarkmiðið er. Við viljum að þessi kerfi virki saman. Það sem veldur mér áhyggjum er þessi átakafjármögnun sem við erum sífellt að sjá. Það berast hér ræður frá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar um að það muni ekki standa á fjármagni, í lok dags verði þetta allt greitt. En til að mynda Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og allar heilbrigðisstofnanir um allt land vilja sjá langtímaáætlanir sem menn geta farið eftir. Við fáum Landspítalann á fund til okkar og sjáum umsögn og þau segja einfaldlega: Þetta fjármagn dugir ekki fyrir raunvexti og það er mjög erfitt fyrir þessa aðila að horfa til framtíðar og tryggja að þeirra rekstur verði skilvirkur ef þau upplifa að það sé ekkert svigrúm til að hreyfa sig.

Varðandi kerfið í heild sinni þá er ég því alveg 100% sammála að þetta snýst ekki bara um Landspítalann. Þess vegna kom nú upp þessi umræða, til að mynda um þjónustusamningana við hjúkrunarheimilin. En við vitum það, við bara vitum það. Það var verið að skrifa undir þjónustusamninga núna fyrr í vor. Þótt þeir hafi ekki verið kláraðir áður en fjármálaáætlun var fyrst lögð fram þá voru þeir tilbúnir eftir að 2. umr. fór af stað. Af hverju komu ekki breytingartillögur þarna inn þannig að hjúkrunarheimili geti horft á sínar tölur og sagt: Það verður staðið við þetta. Við munum ekki þurfa að skera við nögl og skapa enn verri aðstæður fyrir okkar starfsfólk. Við getum ekki staðið við betri vaktavinnutíma o.s.frv.

Þannig að þessi vandi, sem er alltaf verið að tala um að sé svo óskilgreindur og erfitt að komast yfir — þegar upp er staðið þá er það svolítið þannig að peningar geta skipt verulegu máli þegar gatið og hyldýpið er orðið svo djúpt að fólk sér ekki fyrir endann á ákveðnum hlutum. Ég hefði einfaldlega viljað sjá aðra forgangsröðun hér vegna þess að til lengri tíma þá kostar miklu meiri pening að reka kerfið svona.