Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er sammála henni í því. Ég hef nú tekið þátt í tveimur nefndum um endurskoðun almannatryggingakerfisins sem hafa reynt að koma þeim hlutum í þann farveg að hægt sé að taka virkilega á þessu kerfi. Það er eiginlega sorglegt til þess að vita að það skuli ekki hafa tekist vegna þess að það er gífurlega mikilvægt. Það er eitthvað að kerfi sem er þannig að ef viðkomandi reynir að fara að vinna lendir hann á vegg kannski ári seinna með gífurlegum skerðingum og kostnaði við vinnu þegar allt er upp talið. Þá mun það jafnvel ekki einu sinni standa undir einhverju lágmarki, það borgar sig ekki fyrir viðkomandi að reyna að standa í því að vera í vinnu. Það hlýtur að vera eitthvað mjög alvarlegt að og mjög mikið að svoleiðis kerfi sem við verðum að breyta. Við eigum að sjá til þess að peningarnir skili sér í vasa þeirra sem vilja og geta unnið eitthvað. Við eigum auðvitað ekki að fara að skerða svoleiðis hluti fyrr en viðkomandi er t.d. kominn upp í meðallaun í þeirri vinnu þar sem hann er. Það er voðalega ósanngjarnt þegar tveir aðilar vinna á sama stað og annar er skertur strax og kemst aldrei upp í einu sinni helminginn af því sem hinn er með vegna skerðinga af því að hann hefur ákveðna framfærslu úr kerfinu. Það væri þjóðráð, sem við höfum margoft bent á, að þeir sem vilja vinna gætu t.d. farið af stað og fundið sér vinnu og gætu verið skerðingarlausir í tvö ár. Svíar reyndu þetta og þetta virkaði mjög vel hjá þeim. Mér finnst að á meðan við erum að byggja þetta upp ættum við að reyna að koma einhverju svona fyrirkomulagi á. Gerum eitthvað strax, ekki alltaf vera að hugsa það inn í framtíðina.