Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hver er þá stefna stjórnvalda í mjög stórum málaflokki frá síðasta kjörtímabili, og er enn þá vandamál í dag, varðandi t.d. hjúkrunarheimili og þá þjónustu? Ég get hvergi lesið það úr stefnu stjórnvalda hvert við eigum að vera komin árið 2027 í þeim málaflokki. Maður myndi halda að eftir öll þessi ár sem við höfum verið að ræða þetta mál í fjárlaganefnd — vissulega á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmaður var ekki, en vandinn er enn til staðar. Við höfum fengið kynningar á stöðunni fyrir fjárlaganefnd. Hún er sú sama og verið hefur lengi. Hvernig er ríkisstjórnin að sýna okkur hvernig hún kemur til móts við þennan vanda og hvernig ætlar hún að skila af sér þessum málaflokki í lok þessarar fjármálaáætlunar? Það eru svoleiðis skilaboð sem ég vil geta komist í í fjármálaáætlun og lesið, að því gefnu að það fari ekkert úrskeiðis upp á annan faraldur eða eitthvað svoleiðis að gera, bara að því gefnu sem við sjáum í þeim spám sem við erum að vinna með, í þjóðhagsspá og þess háttar, bara venjulegur hagvöxtur o.s.frv. — að því gefnu ætlum við að taka þennan málaflokk úr þessari hérna stöðu í þessa þarna stöðu þar sem staðan verður miklu betri og æðislegri o.s.frv. og útskýra af hverju og hvernig. Hvar eru svoleiðis útskýringar í þessari fjármálaáætlun um svo mikið sem einn málaflokk?