Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er næstum því þunglyndi eftir þetta, ég verð að segja það, þó að maður eigi ekki að fara með það sem eitthvert fleipur. En ég skil það mætavel að að ýmsu sé fundið þegar stjórnarandstaðan talar til stjórnarmeirihluta og landsmanna. Það er bara hið eðlilegasta mál. Það var mjög margt sem þingmaðurinn kom inn á og einn af þeim göllum sem við búum við er sá að áheyrnarfulltrúar geta ekki skilað formlegu nefndaráliti, sem hefði verið ansi gott núna þar sem ræða hv. þingmanns var talsvert yfirgripsmikil. Hann kom inn á nokkur atriði og ég bið þingmanninn um að fyrirgefa ef ég veð úr einu í annað, hann talaði líka um svo margt, m.a. íbúðabyggingar og stofnframlögin og annað slíkt. Við þekkjum það, við höfum farið í gegnum það í nefndinni, að m.a. þurfti að skila inn stofnframlögum vegna þess að ekki náðist að koma þeim í vinnu. Það er miður. Ég tek undir það með þingmanninum að ég held að eitt af því góða sem hefur gerst sé einmitt sú vegferð sem lagt var í þar og sveitarfélög hafa mörg hver sem betur fer nýtt sér. Við þurfum að passa enn þá betur upp á þetta, en sveitarfélögin þurfa líka að vera tilbúin. Mig langaði til þess að velta því upp hvar þingmaðurinn vill helst bera niður í tekjuaukningu. Ég heyrði auðlindagjaldið, það var eitthvað annað sem hann nefndi, ég náði því ekki. Hvar vill hann helst bera niður? Og í því samhengi líka, varðandi tekjustofna sveitarfélaga og af því að okkur hefur orðið tíðrætt um þá, hvað telur hv. þingmaður, eftir að hafa setið svona lengi í sveitarstjórn, að gæti verið skynsamlegast að gera? Hvar geta sveitarfélögin fengið sem mestan arð?