Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar hér, með aðeins fyllri hætti en áðan, að koma inn á þátt samgöngu- og fjarskiptamála. Það hefur vakið töluverða athygli mína, og gerði það þegar fjármálaáætlunin var lögð fram, að frá árinu 2023 til ársins 2027 var gert ráð fyrir að framlög til samgöngu- og fjarskiptamála myndu lækka um 14,4%. Ég er mjög fylgjandi aðhaldi í ríkisrekstri og þætti gott ef menn sæju fram á 14,4% lækkun útgjalda í ýmsum rekstrarþáttum hins opinbera en mér þykir mjög slæmt að sjá 14,4% samdrátt yfir fimm ára tímabil í þeim þætti opinberra fjármála sem er að stærstum hluta framkvæmdir og viðhald. Þarna væri raunverulega þörf á að auka í eins og málin standa. Þá segja menn eflaust: Ja, það er allt of mikið að gera í samfélaginu núna. Það fást ekki verktakar og verð hækkar.

Tímabundið mun verðið vissulega hækka vegna hækkunar á verði aðfanga. En verð vegna þjónustu verktaka er fyrst og fremst, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, að hækka vegna þess að markaðurinn er svo lítt fyrirsjáanlegur. Menn hafa ekki fyrirsjáanleika til að vaxa jafnt og þétt, að lítil og millistór verktakafyrirtæki verði millistór og stór o.s.frv. Þetta tekst ekki á meðan fyrirsjáanleikinn er jafn lítill og raunin er og sveiflurnar og það með hvaða hætti framkvæmdahluti hins opinbera og sérstaklega vegagerð í gegnum tíðina — hver nálgunin hefur verið. Það að þarna séu áætlaðir á árinu 2023 51,6 milljarðar í samgöngu- og fjarskiptamál en á árinu 2027 44,2 milljarðar — þetta er sem sagt lækkun á þessu tímabili á árlegum útgjöldum um rúma 7,4 milljarða, nánar tiltekið 7.446 milljónir á ári ef við berum saman árið 2023 og 2027, 14,4%.

Hvernig þykir mönnum þessi skilaboð harmónera við þennan sífellda söng um mestu framkvæmdir allra tíma, mestu framkvæmdaáform allra tíma? Það fylgir ekki hugur máli. Það er bara ekki hægt að lesa neitt annað út úr þessum töflum. Við sjáum hvernig hefur gengið með áform sem hefur stundum verið útskýringin á stiglækkandi útgjöldum til samgöngumála. Þá hefur verið gripið til þess ráðs að útskýra það með því að það sé svo mikið sem bætist við í svokölluðum samvinnuframkvæmdum. Það gengur eins og það gengur og lítið í þær framkvæmdir að sækja undanfarin ár og því miður gengur ekki vel með fyrstu verkefnin sem ráð var gert fyrir að kæmust til framkvæmda á grundvelli þeirrar sérstöku lagasetningar. Síðan er því flaggað að það muni nú bætast við út af hinum ýmsu átaksverkefnum. En það er einmitt eitrið í þessu öllu, að við séum í stöðugum átaksverkefnum. Þess vegna fáum við ekki fleiri öfluga verktaka af því að það bindur enginn það fjármagn sem nauðsynlegt er til að verða burðugur verktaki í fyrirtæki ef þetta er eins og jójó, framkvæmdaþáttur hins opinbera. Það verður að auka fyrirsjáanleika, stækka verkefni og gera verktökum auðveldara að skipuleggja sig. Annars verðum við föst á þeim stað að þegar uppsveifla er í öðrum þáttum samfélagsins þá fer verð upp úr öllu valdi í vegagerð og þá halda menn að sér höndum og til verða uppsafnaðar framkvæmdafjárveitingar sem svo er hægt að skera niður í bókhaldsaðgerð eins og nú er gert með breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar.

Þetta eru sömu skilaboð og hafa áður komið fram frá þessari ríkisstjórn sem nú situr á sínu fimmta ári, þ.e. þessi stiglækkandi útgjöld til samgöngu- og fjarskiptamála sem eru auðvitað að langmestu leyti samgöngumál. Þessi málaflokkur skarast á milli ráðuneyta eftir síðustu uppstokkun þannig að fjarskiptamálin eru farin inn til háskóla- og nýsköpunarráðherra og samgöngumálin inn til innviðaráðherra, en eins og ég segi er meginþunginn í samgönguhlutanum.

Á sama tíma kom fram, í ræðu fyrr í dag, að nú eru uppi áform um að framlengja samning sem var gerður árið 2012 um stuðning við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu upp á milljarð á ári, 1.000 milljónir á ári, verðbætt miðað við árið 2012, ef ég man rétt, að nú séu uppi áform um að framlengja hann um 12 ár. Ég hreinlega trúi því ekki að uppi séu áform um að framlengja þann samning um 12 ár, upp á milljarð á ári, væntanlega uppfært til verðlags, þegar árangurinn af fyrsta fasa, fyrstu tíu árum, þessa verkefnis er enginn. Þegar samningurinn var gerður árið 2012 voru 4% farinna ferða í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með strætó. Þegar tölur fyrir árið 2021 voru skoðaðar þá voru það 4%. Það hefur enginn árangur náðst. Enginn. Nú eru uppi áform um að bæta við 12 árum, 12 milljörðum plús verðbætur. Þetta gerist bara einhvern veginn sjálfkrafa. Ég hef ekki orðið var við mikla umræðu hér í þingsal þó að ég hafi nokkru sinnum reynt að kalla eftir henni varðandi þennan samning. En ef samgönguráðherra eða innviðaráðherra, eins og það heitir í dag, er í færum til að gera samning upp á rúma 12 milljarða til að styrkja Strætó á höfuðborgarsvæðinu, á grundvelli verkefnis sem hefur engu skilað á tíu árum, þá er nóg til. Eins og Alþýðusambandið segir: Þá er nú nóg til. Þá væri nú ágætt að grípa í önnur verkefni sem væri jafnvel meira gagn að og líklegt að árangur næðist. Það má vera að ég hafi þetta ekki nákvæmlega rétt eftir en er ekki einhvers staðar sagt að skilgreining á geðveiki sé sú að fólk geri sama hlutinn aftur og aftur og reikni með annarri niðurstöðu, það er svona nokkurn veginn þannig. Það er eitthvað í þá veruna sem kemur í ljós, sýnist manni, ef gera á samning á svipuðum forsendum, upp á milljarð á ári til 12 ára, þegar samningur upp á milljarð á ári til tíu ára hefur engu skilað, 4,0% ferða á móti 4,0%. Ég held raunar, eftir að hafa gluggað í nýjustu ferðamátaskýrsluna, eins og ég held að hún sé kölluð, að nýtingin sé að minnka núna á síðasta ári gamla samningsins. Þetta verður að vera með smáfyrirvara, mig minnir að þar hafi ég séð töluna 3,8% ferða. Eftir tíu ár af milljarði á ári til að styðja við Strætó þá hefur enginn árangur náðst, nýtingin er jafnvel minni ef minni mitt svíkur ekki.

Það eru svona þættir í rekstri hins opinbera sem æra skattgreiðendur. Það er sú tilfinning að verið sé að fara illa með peninga til að friðþægja einhverja hópa. Þessi milljarðskróna stuðningur er veittur á sama tíma og stjórn Strætó tekur ákvörðun um að skerða þjónustu af því að fjárveitingar eru ekki til staðar til að standa undir grunnþjónustunni. Á sama tíma er horft til þess að fara í 100 milljarða aðgerð á forsendum borgarlínu sem enginn veit hvað muni raunverulega kosta og hvað þá hvernig eigi að reka til framtíðar. Þetta skilur allt eftir tilfinningu um vonda meðferð á skattfé almennings. Þá fer að svíða að búa þar sem heildarskattheimta er sú næsthæsta innan OECD-ríkjanna þegar tekið hefur verið tillit til þess með hvaða hætti lífeyriskerfi eru fjármögnuð. Við verðum að fara betur með skattfé almennings og undir þessum samgöngulið varð ég að nefna að þessi samningur er alveg hreint með ólíkindum.

Ég á nokkur atriði eftir og vil biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.