Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[23:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar að stíga inn í það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er að ræða; ég ætla að geyma mér aðeins það sem snýr að Reykjavíkurborg þessi misserin. Mig langar hér að tala stuttlega um málefni er snúa að atvinnuleysi og hagspá. Það kemur hér fram í nefndaráliti meiri hlutans sem undir rita, geri ég ráð fyrir, allir fulltrúar meiri hlutans — já, þeir eru hér sex talsins, það eru ekki nema þrír stjórnarandstæðingar í hv. fjárlaganefnd eftir að skipað var í nefndir eftir kosningar. Hér er verið að gera ráð fyrir því, á bls. 3 í nefndaráliti meiri hlutans, að atvinnuleysi, ef við notum mat Seðlabankans, á árinu 2022 verði 4,3%, á árinu 2023 verði það 4,2% og á árinu 2024 verði það 4,2% sömuleiðis, sem sagt 4,2 og 4,3% til næstu þriggja ára.

Það er eitthvað brogað orðið í kerfinu hjá okkur þegar það sem virðist vera að verða náttúrulegt atvinnuleysi er að verða töluvert hærra en það var um langa hríð. Síðan horfum við á atvinnuleysisspár; spá Hagstofunnar er mjög samhljóma spá Seðlabankans og meðaltal greiningaraðila er þarna á svipuðu róli, hærra til skamms tíma og örlítið lægra til lengri tíma, rúm 4%.

Það er kallað úr öllum hornum á aukið vinnuafl. Ferðaþjónustan gæti í samhengi hlutanna alveg örugglega tekið næstum því endalaust við núna. Það er mikill skortur í byggingariðnaði og víða í þjónustugeiranum. Síðan horfum við á spítalana með sín mönnunarvandamál, leikskóla, grunnskóla og þar fram eftir götunum og alls staðar er verið að glíma við mönnunarvandamál, en samt er spáð um rúmlega 4% atvinnuleysi stöðugt næstu þrjú árin.

Við verðum að skoða hvað veldur. Það er einhver breyting sem er að verða í íslensku samfélagi ef þetta er raunin sem ég held að við verðum að gera tilraun til að stíga inn í og vinda ofan af. Við þekkjum áhrif langtímaatvinnuleysis. Þau eru mjög neikvæð, ekki bara líkamlega heldur sérstaklega andlega fyrir þá sem í því lenda. Við verðum að reyna að fara í staðreyndagrundaða umræðu um það hvað það er sem veldur því að menn telja langtímaatvinnuleysi vera svona miklu meira en við höfum áður séð í sambærilegu árferði þegar vantar vinnandi hendur í öll horn. Ef staðan er orðin sú, ef skýringin er sú, að það er orðinn of lítill munur á bótum og þeim launum sem þessir aðilar gætu fengið fyrir sín störf þá er það atriði sem við verðum að skoða sérstaklega og alvarlega. Ef staðan er sú að það er eitthvað sem snýr að heilbrigði þjóðarinnar sem orsakar þetta, þar sem þessir hópar enda síðan mögulega inni á örorku í framhaldi af atvinnuleysistímabili, þá er það líka hlutur sem við þurfum að skoða sérstaklega. En það er gríðarlega mikið til þess vinnandi að stöðva þessa þróun áður en hún verður að varanlegu fyrirkomulagi og varanlegum takti í íslensku samfélagi því að hvert prósentustig í þessum efnum kostar marga milljarða. Það er mikið til þess vinnandi að finna lausn á þessu. Og í ljósi þeirra talna sem hér liggja fyrir verðum við að gera það.

Áður en þessari ræðu minni lýkur vil ég leiðrétta það sem ég sagði í fyrri ræðu. Þegar ég vitnaði í hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson áðan þá tilgreindi ég hann sem formann efnahags- og viðskiptanefndar. Hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson er auðvitað formaður atvinnuveganefndar og biðst ég forláts á þessu mismæli mínu.

Virðulegur forseti. Ég bið þig að setja mig aftur á mælendaskrá.