Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[23:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langaði að beina aftur sjónum mínum að nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Þar er á bls. 8, undir fyrirsögninni Brýn verkefni sem meiri hlutinn leggur áherslu á, ýmislegt áhugavert sem skoðast auðvitað sérstaklega í ljósi þess að sú ríkisstjórn sem nú situr er á sínu fimmta ári, en það er dálítið eins og sá texti sem hér er skrifaður hafi verið settur fram af einhverjum sem er mættur með nýja kennitölu og hvítþveginn af verkefnum liðins kjörtímabils. Hér segir, með leyfi forseta:

„Skerpa þarf á forgangsröðun verkefna innan fjárhagsramma í stað þess að stöðugt sé óskað eftir auknum fjármunum fyrir ný verkefni.“

Það er einhvern veginn eins og þessi texti sé skrifaður af aðilum sem eru að koma nýir að verkinu, ekki fyrir hönd einhverra sem eru á fimmta ári. Hér segir áfram, með leyfi forseta: „Endurskoðun núverandi útgjalda þarf að efla.“ Og eins og áður sagði: „Skerpa þarf á forgangsröðun verkefna innan fjárhagsramma í stað þess að stöðugt sé óskað eftir auknum fjármunum fyrir ný verkefni.“

Þetta er frábær setning. Ég vona að það viti á gott að við séum að horfa til þess að raunverulega verði litið til forgangsröðunar og þess að ná sem mestri nýtingu út úr skattfé borgaranna, því að ekki hefur það verið áberandi á fyrstu fjórum árum þessarar ríkisstjórnar.

Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„Það er því mikilvægt að aðhald í ríkisrekstri á næstu árum“ — þetta er í sambandi við umfjöllun um verkefnið Stafrænt Ísland, sem hefur tekist prýðilega — „dragi ekki úr hvata til stafrænnar þróunar í opinberri þjónustu heldur ýti undir hana sem leið til að nýta betur þá fjármuni sem varið er í þjónustuna.“

Það á sem sagt að fá meira fyrir minna. Ég verð bara að leita leiða til að finna þann sem skrifaði þennan fína texta því að það er ekki að sjá að þessi markmið hafi verið í sérstökum forgrunni fyrstu rúmu fjögur ár þessarar ríkisstjórnar. Svona eigum við að nálgast meðferð skattfjár, en því miður er það ekki svona sem við sjáum meðferðina á því. Nú vísa ég bara í það sem ég nefndi áðan, um þessa undarlegu framlengingu sem virðist eiga sér stað í kyrrþey þar sem á að setja milljarð á ári í að styðja við það verkefni að hækka hlutfall farinna ferða með strætó á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að enginn árangur hafi náðst með milljarði á ári undanfarin tíu ár. En nú telja menn allt í einu að árangur náist með því að framlengja verkefnið um 12 ár. Þarna eru 12 milljarðar sem ég er hræddur um að muni ekki hafa nein áhrif miðað við hvernig gengið hefur undanfarin tíu ár.

En ég fagna því að hér sé sýn sem rammar inn þá hugsun að við eigum að leitast við að fá meira fyrir minna í ríkisrekstrinum. Ég er svona hóflega bjartsýnn því að þessi ríkisstjórn er ekki ný, hún er gömul og búin að sitja í á fimmta ár og hingað til hefur þetta ekki sést í verkum hennar. Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Til að efla enn framtíðarvöxt og tækifæri leggur meiri hlutinn áherslu á að unnið verði með mun markvissari hætti að samþættingu til að rjúfa ákveðna stöðnun í ýmsum þáttum innviða.“

Til að rjúfa ákveðna stöðnun. Þetta eru aðilar sem eru búnir að vera við stjórnvölinn í hartnær fimm ár og nú ætla þeir að fara að rjúfa ákveðna stöðnun í ýmsum þáttum innviða — eftir fimm ár. Af hverju gerðu menn þetta ekki bara strax? Þetta er allt einhver furða. Því hefði þessi frábæri kafli, sem ég hvet landsmenn alla til að lesa, á bls. 8 í nefndarálitinu, undir fyrirsögninni Brýn verkefni sem meiri hlutinn leggur áherslu á, getað verið skrifaður af fulltrúum Miðflokksins. Þetta er frábær texti en ríkisstjórnin hefur ekki hagað sér í samræmi við þetta undanfarin fjögur og hálft ár (Forseti hringir.) og það er ekkert sem bendir til að það sé að fara að breytast. En ég vona að það sé einhver raunveruleg stefnubreyting að verða.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég er rétt að byrja á því sem snýr að nefndaráliti meiri hluta og bið um að vera settur aftur á mælendaskrá.