Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 89. fundur,  13. júní 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[23:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var að fjalla um umhverfiskaflann og var að rekja það hvernig sumar þessara dýru aðgerða sem hér er gert ráð fyrir á sviði umhverfismála séu ekkert endilega til þess fallnar að skila raunverulegum árangri og geti jafnvel verið til tjóns. En við það bætist að það hefur verið mikil tilhneiging, sem heldur hér áfram, til að leggja auknar álögur á allan almenning vegna umhverfismálanna, þ.e. að fjölga refsisköttum og hækka þá, refsisköttum fyrir það að vera til. Skilaboðin í loftslagsstefnu, þeirri nýjustu, frá ríkisstjórninni — þó að hún sé nú ekki beinlínis hluti af þessu skjali, en það er vísað í það — eru þau að almenningur þurfi helst að draga úr neyslu, ferðast minna, kaupa minna, borða minna, gera minna. Það er önnur leið til að orða það, frú forseti; að það þurfi að skerða lífskjör, vegna þess að það er jafnt og þétt þrengt að öllum þeim gæðum sem menn njóta í nútímasamfélagi.

Svo er fjallað sérstaklega um auknar kröfur varðandi heimilisúrgang. Það er nú reyndar áhugaverður inngangskafli hérna um kynja- og jafnréttissjónarmið í samhengi við það, en þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem konur verja mun meiri tíma en karlar í ólaunaða vinnu sem tengist heimilishaldi og umönnun er líklegt að auknar kröfur um endurvinnslu á heimilum hafi þau áhrif að auka vinnuálag kvenna. Ekki hefur verið gerð sérstök rannsókn þar að lútandi en mikilvægt er að taka tillit til þessa kynjahalla og kanna áhrif slíkra aðgerða við útfærslur lausna eins og hægt er og vinna að frekari gagnasöfnun.“

Það er nú kannski gagnrýnivert að þessi rannsókn á mismunandi vinnuálagi við þessar nýju aðgerðir skuli ekki hafa farið fram nú þegar. Þarna er reyndar enn þá bara gert ráð fyrir tveimur kynjum. Ég veit ekki hvort ríkisstjórnin muni vilja og útvíkka það eitthvað í þessari fyrirhuguðu rannsókn í samræmi við önnur frumvörp frá ríkisstjórninni. En allt ber að sama brunni, það er verið að gera ráð fyrir auknum kröfum til alls almennings. Það er verið að gera ráð fyrir eða fara fram á minni lífsgæði og aukna gjaldtöku.

Svo kemur kaflinn um stjórnsýslu umhverfismála. Hann er áhugaverður í ljósi þess að þegar fjárveitingar til málaflokksins eru skoðaðar sést glögglega hversu stór hluti þessarar háu upphæðar, á þriðja tug milljarða króna, rennur til stjórnsýslumála málaflokksins. En það er eflaust margt að skoða og rannsaka og stýra þegar menn hafa það verkefni að ráðskast með daglegt líf fólks og kannski ekki við öðru að búast en að þetta yrði raunin. Maður veltir þá fyrir sér í þessu samhengi hversu mikið af þessum 50 milljörðum sem voru settir þarna á einu bretti í loftslagsmálin renni í stjórnsýslu og að ein stofnun borgi annarri fyrir að velta fyrir sér þessum málum án þess endilega að það skili hagkvæmustu niðurstöðunum.

Þá kem ég að því sem ég ætla að fjalla um næst en sé að ég hef takmarkaðan tíma í þessari ræðu, en það eru aðgerðir sem virka raunverulega til að takast á við loftslagsmálin og auka á sama tíma hagsæld og lífsgæði í landinu. Það hefði verið óskandi í áætlun frá ríkisstjórninni til fimm ára, líklega þeirri fimmtu frá þessari ríkisstjórn, að hún legði meiri áherslu á slíkar aðgerðir, aðgerðir sem virka raunverulega og bæta auk þess kjör landsmanna. (Forseti hringir.) Það er efni í aðra ræðu og því bið ég forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.