Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

sorgarleyfi.

593. mál
[20:18]
Horfa

Guðný Birna Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Frumvarp til laga um sorgarleyfi er gott og verðugt frumvarp en með því er verið að efla réttindi foreldra í kjölfar barnsmissis. Með lögunum verður komið til móts við tekjutap foreldra auk þess að taka til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og foreldra í fullu námi. Markmið laganna verður að tryggja foreldrum svigrúm til að takast á við sorgarferlið auk þess að styðja við eftirlifandi systkini í þeirra breyttu aðstæðum. Þetta frumvarp er gott því að með því eiga foreldrar rétt á svigrúmi og andrými í kjölfar þess hörmulega atburðar að missa barn eða fóstur eftir 18 vikna meðgöngu. Tímabil sorgarleyfis getur varað í allt að sex mánuði vegna barnsmissis, eins og hv. þm. Orri Páll Jóhannsson kom inn á, þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu og í tvo mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 18 vikna meðgöngu. Er þetta sér í lagi gott þar sem réttindi þeirra sem verða fyrir fósturláti á meðgöngu hefur alla jafna ekki verið gert mjög hátt undir höfði.

Virðulegi forseti. Ég fagna umræddu frumvarpi sem kemur vel til móts við foreldra eftir að þeir hafa lent í eins hörmulegum atburði og barnsmissir eða fósturmissir er.