Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[21:50]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Ég held að það sé of seint að telja hv. þm. Andrési Inga Jónssyni hughvarf. En ég er einmitt hingað kominn til þess að mæra aftur þingið fyrir þessa breytingu sem ég held að sé mjög jákvæð. Það kemur raunar nokkuð á óvart hversu þröng greinargerðin er í upptalningu á mikilvægi þessarar breytingar á rammalöggjöf fyrir raforkuframleiðslu á Íslandi.

Nú er það þannig að ég er menntaður á þessu sviði og menntaður í Noregi. Norðmenn voru gróflega séð 50 árum á undan okkur í sinni rafvæðingu og gengu miklum mun lengra en Íslendingar hafa gert í að nýta sínar vatnsaflsauðlindir. Þeir eru miklu lengra komnir í að nýta allt það afl eða allar þær vatnsauðlindir sem þar er hægt að nýta. Sjálfsagt myndu margir segja illu heilli.

Það sem hefur hins vegar komið í ljós er að breytingar eins og sú sem hér er til umræðu nú höfðu gríðarleg áhrif á orkuframleiðsluna í Noregi, og þá sérstaklega snerist það um að uppfæra tækni gamalla vatnsaflsvirkjana, en líka að auka uppsett afl. Nú voru hér til umræðu tengsl þessara ákvarðana við miðlun en það er á nokkrum misskilningi byggt að það sé endilega nauðsynlegt. Nú erum við ekki í sömu aðstöðu og Norðmenn en það sem kom í ljós í Noregi var að vatnsaflskerfi eru í eðli sínu alltaf með meiri miðlunargetu en framleiðslugetan segir til um til að takast á við sveiflur í aðgengi að vatni eða úrkomu á vatnasvæði virkjana milli ára. Iðulega er þetta umtalsvert. Jafnvel hefur verið talað um 20% í þessu samhengi.

Í tengslum við umræðu, sem átti sér stað fyrir nokkrum árum en lauk ekki með neinum ákvörðunum og óvíst er hvort þær verði nokkurn tíma teknar, um tengingu íslenska raforkukerfisins við breska raforkukerfið þá langar mig að nefna að reynsla Norðmanna var sú að þegar þeir tengdu sitt raforkukerfi við fyrst sænska raforkukerfið og síðan danska raforkukerfið gátu þeir jafnað út skammtímasveiflur í eftirspurn, einfaldlega með því að auka uppsett afl án þess að auka miðlun og framleiða meira en virkjunin gat raunverulega miðað við þá miðlun sem hún var hönnuð fyrir en einungis til skamms tíma í einu og geymt raforku án taps sem er raunar alls ekki mögulegt — það eru eðlisfræðileg lögmál sem koma í veg fyrir það — með nokkurri annarri tækni heldur en einfaldlega að geyma vatnið þar sem það er, leyfa því ekki að renna í gegnum virkjunina. Norska raforkuframleiðslukerfið tók við því hlutverki að jafna út skammtímamisræmi milli framleiðslugetu varmadrifna danska raforkukerfisins, en það var fyrst og fremst keyrt áfram af kolaorku, og eftirspurnar í Danmörku.

Svona var staðan u.þ.b. um aldamótin. Eftir það hefur orðið alger bylting í Evrópu í framleiðslu á raforku með vindorku. Vindorkan hefur forgang inn á raforkukerfið, alla vega eins og það er í Evrópu. Það er óvíst hvort Íslendingar myndu fara að því fordæmi en jafnvel án þess forgangs standa vindaflsvirkjanir frammi fyrir því vandamáli að vindurinn blæs ekkert endilega þegar raforkueftirspurnin er mest. Þá þarf einhver að geta jafnað út sveiflur og þeir einu sem raunverulega geta það án taps eru vatnsaflsvirkjanir. Með þessari lagabreytingu er verið að opna þann möguleika að auka framleiðslu á vindorku á Íslandi með hagkvæmum hætti, þ.e. að Ísland gæti byggt upp meiri vindorku en nokkurt ríki á byggðu bóli vegna þess hversu mikið af miðlun við eigum og hversu umfangsmikil miðlunin er vegna einfaldlega þeirra miklu árstíðasveiflna sem eru í úrkomu á Íslandi miðað við uppsett afl. Það er hægt að setja upp mjög mikið af vindorku á Íslandi án verulegs tilkostnaðar einfaldlega með því að auka uppsett afl virkjana án þess að auka miðlun. Það er tækifæri sem er einstakt meðal þjóða heimsins.

Kostirnir eru ekki upptaldir enn vegna þess að það vill svo til að ég er annar tveggja leiðbeinenda ungs hæfileikamanns sem er að rannsaka tengingar gufuaflskerfa, gufuaflsvirkjana og vatnsaflsvirkjana. Þar eru tækifæri sem ekki hafa verið fyllilega nýtt eða rannsökuð og þyrfti nauðsynlega að búa í haginn fyrir á Íslandi. Hér ég þá aftur kominn til þess að kveikja í brjósti einhvers þingmanns sem hér er að jafnaði, öfugt við mig, áhugann á því að skoða þá möguleika með því að opna fyrir meiri skilvirkni í verðlagningu á raforku á Íslandi, sem er því miður mjög skammt á veg komin af því að forsendur fyrir skilvirkum markaði hafa verið mjög takmarkaðar.

Ég ætla í stuttu máli að lýsa því um hvað þetta snýst. Nú sýndist mér á þeim sem upp litu þegar ég var að tala um vindorkuna að menn skildu vandamál vindorkunnar. Vindurinn blæs bara þegar veðrið leyfir og aðstæður, það þarf ekkert endilega að vera á sama tíma og eftirspurn er eftir orkunni. Einhver þarf að jafna það út. Sá sem gerir það best er vatnsorkan. En ef þú fókuserar út eða þýðir út, eins og það myndi heita á íslensku, í tíma og skoðar vatnsorkuna til lengri tíma þá er hún eins og vindorka og gufuaflið eins og vatnsorka, þ.e. það eru sveiflur. Allir kannast við niðurskurð Landsvirkjunar á orku til stóriðju á þessum vetri sem skapaðist vegna erfiðs vatnsbúskapar hjá Landsvirkjun. Gufuaflsvirkjanir geta líka geymt orku með því að tappa ekki af þrýstingi í orkugeymum og þær geta geymt hann eins lengi og þær vilja og þar með jafnað út langtímasveiflur í vatnsorku með því að geyma orku milli árstíða í staðinn fyrir að geyma hana milli klukkustunda, eins og í tilfelli vindorkunnar gagnvart vatnsorkunni.

Nú veit ég ekki hvort ég er búinn að tapa salnum í þessum tengingum öllum en hugmyndin er sú að þú eykur uppsett afl vatnsaflsvirkjana og gufuaflsvirkjana til þess að þurfa raunverulega að virkja minna. Þá komum við aftur að umræðuefni sem var hér fyrr í dag, sem var rammaáætlun og þær sársaukafullu ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að auka orkuframleiðslu ef við ætlum að geta stigið þau skref í orkuskiptum sem við viljum. Þessi aðferð fækkar þeim skrefum þannig að jákvæðar afleiðingar þessarar ákvarðanatöku sem meiri hlutinn stendur hér fyrir — og ég verð að viðurkenna að mér finnast framsýnar og skynsamlegar og jafnvel framsýnni og skynsamlegri en meiri hlutinn gerir sér grein fyrir eins og ég hef farið yfir hér — geta raunverulega létt nokkuð á okkur með því að auðvelda bæði vatnsaflsvirkjunum og gufuaflsvirkjunum að auka uppsett afl án þess að auka raunverulega umfangið á umhverfisraskinu sem því fylgir, þ.e. auka uppsett afl vatnsaflsvirkjana án þess að auka miðlun og auka framleiðslugetu gufuaflsvirkjana án þess nauðsynlega að stækka svæðið. Þetta hljómar kannski undarlega þar sem raunverulega er verið að leggja til að vera með meiri framleiðslugetu en hægt er að standa undir til lengri tíma. En með því er verið að eyða sveiflum þeirra orkukosta sem eru í eðli sínu sveiflukenndir og draga úr þörf íslenska raforkukerfisins í heild sinni til að vera stærra en þarf í meðalári svo hægt sé að takast á við og framleiða nægilegt rafmagn í vondum vatnsárum.

Stutt samantekið er ekki nóg með að hægt sé að nýta nýja tækni eða breytingar á flæði að vatnsaflsvirkjunum betur með þessari ákvarðanatöku heldur líka að opna fyrir aukna framleiðslu á raforku með vindafli og draga úr þörf á umfangi heildarframleiðslugetu vatns- og gufuaflsvirkjana með það fyrir augum að ná markmiðum um aukna orkuframleiðslu með minnsta mögulega vistsporinu.