Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[22:01]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Daða Má Kristóferssyni fyrir sína ræðu og er sá sem hér stendur eiginlega að fara ræða mjög svipaða hluti. Svo ég komi aðeins með bakgrunninn þá vann ég í orkustefnunni, var í þeim hópi í tæp tvö ár. Í þeirri vinnu lagði ég mikla áherslu á að byggja upp raforkukerfið, flutningskerfi raforku, háspennta kerfið, byggðalínuhringinn, það væri stóra áherslan. Það var síðan samspilið við vindorkuna, sem við höfum allt of lítið rætt á Íslandi, og svo var eitt af atriðunum samkeppnishæfni Íslands í raforkumálum, sem er náttúrlega stór undirstaða undir lífskjörum á Íslandi. Þetta mál kemur sterkt inn í þá umræðu að auka aflgetu virkjana í Þjórsá, þessara þriggja virkjana. Nákvæmlega eins og hv. þingmaður, sem var að ljúka máli sínu, kom inn á er ekki verið að stækka lónin og auka aflgetu virkjananna þannig að það verði meiri sveigjanleiki í kerfinu, það rennur minna í lónin yfir vetrartímann og þetta jafnar síðan úr sveiflunni, sumarleysingarnar og jökulbráðnunin á þeim tíma árs sem hún stendur. En á móti blása vindar meira að vetrarlagi og lognið er meira og veðrið betra yfir sumartímann að jafnaði. En þetta jafnar mjög úr sveiflum.

Ég spurði íslenska sérfræðinga: Hver er nýtingin á íslenska raforkukerfinu í dag? Flestir skutu á 75% nýtingu á kerfinu okkar. Þess vegna hefur maður verið að ræða vindorkuna síðustu árin. Hún er svo mikilvæg inn í nákvæmlega þetta, til að bæta nýtingu á raforkukerfinu. Það eru gríðarlegir hagsmunir undir og þá hleypur það fljótt á milljörðum og örugglega tugum milljarða þegar við lítum til framtíðar, að við getum nýtt kerfi okkar betur. Þess vegna er líka í þessu samhengi svo mikilvægt að við séum með öflugt flutningskerfi raforku, þ.e. til að miðla orkunni um allt land.

Hv. þingmaður kom inn á stærra samhengi hlutanna, Noreg, Svíþjóð og Danmörk. Norðmenn komu með sæstrengina, en það sem við erum að gera er í eðli sínu svipað. Við erum að tengja saman alla þessa hluti með öflugu flutningskerfi. Þegar byggðalínuhringurinn var lagður fyrir bráðum 50 árum síðan gat hann flutt um 20–25% af aflgetu virkjana á Íslandi. Nú er þetta hlutfall komið niður í 3–4%, eins og það er í dag, og við höfum upplifað það sérstaklega í vetur, og við sáum þetta líka 2014 eða 2015 og síðan kannski síðustu tvo vetur, við höfum séð merki um að ef við værum með þótt ekki væri nema öflugra flutningskerfi þá gætum við minnkað og nýtt betur kerfi okkar í heild sinni. Þá eigum við eftir órædda vindorkuna í þessu samhengi, þannig að það var mjög ánægjulegt að fá ræðu hv. þm. Daða Más Kristóferssonar hér áðan og fá að ræða þessi mál í beinu framhaldi af því.

Þess vegna tel ég þetta mál vera mjög gott mál, satt að segja afbragðsmál í því sem við erum að eiga við hérna á Íslandi í dag, vegna þess að við erum að tala um að nýta það sem við höfum, þessa mikilvægu dýrmætu grænu orku með skynsamlegri hætti, öflugri hætti. Við þurfum kannski ekki að virkja eins mikið í vatnsafli og öðru með því að auka vindorkuna á móti og vera síðan með öflugt flutningskerfi raforku. Á undanförnum árum hefur verið barist gegn vatnsaflsvirkjunum. Það hefur meira að segja verið barist gegn því að byggja upp flutningskerfi raforku. Ég þekki það úr Eyjafirði, af mínum heimaslóðum, við þekkjum þetta á Vestfjörðum og við þekkjum þetta á Suðurnesjum, að það er ákveðin meinsemd í kerfinu okkar að við höfum ekki getað flutt orkuna á milli svæða.

Það hefur líka komið fram í sambandi við vindorkuna og mælingar á hafinu á þessu svæði sem er verið að tala um, Búrfellslund, sem kom fram í dag í umræðunni okkar um rammaáætlun, að það er góð nýting á Íslandi, á hafinu. Það er yfir 45% nýting sem er afbragðsgóð nýting vindorku. Á móti erum við að tala kannski um 28% á heimsvísu. Þá held ég að það sé almennt verið að tala um vindmyllur á landi, ekki sjó.

Ég vil hafna því og mér finnst þetta leiðinleg umræða sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var með áðan um að við í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar höfum verið að vinna þetta verk á vafasömum forsendum. Þetta er náttúrlega algjörlega óþolandi ræðumennska. Alltaf þarf að vera með þetta svona hástemmt. Ég held að það hafi ekkert verið vafasamt í þessu. Ég held að skynsamt fólk sjái að þetta er nokkuð borðleggjandi allt saman sem tengist þessu máli.

Það sem er síðan einstakt við Þjórsársvæðið og fyrirhugaðan Búrfellslund og þá staðsetningu er að nú þegar eru til staðar háspennt raforkukerfi eða raforkulínur sem geta flutt töluvert meiri orku en þær gera í dag. Þar kemur enn ein breytan í hagkvæmni þessa verkefnis, þannig að það eru margir plúsar við þetta. Ég hef kallað eftir því hér í þinginu á undanförnum árum, frá því að ég kom inn á þing, að við ræðum meira um orkumál almennt, að við ræðum meira um vindorku og þá kosti sem hún hefur fyrir raforkukerfi okkar, eins og ég hef komið inn á varðandi betri nýtingu á heildarkerfinu, að við nýtum betur vatnsaflið. Mér fannst áhugavert hjá hv. þm. Daða Má Kristóferssyni hérna á undan varðandi samspil jarðvarmans á móti vatnsafli, sem er önnur breyta sem ég er kannski að leggja áherslu á hér, vatnsafl og vindafl. En það að við sem þjóð eigum þá þessa þrjá mikilvægu möguleika í grænni orku og framleiðslu á grænni orku, sem er jarðvarmi, vatnsafl og vindorka, er einstakt. Maður heyrir það á gestum þegar maður situr í utanríkismálanefnd, ég er varaformaður hennar, að það er mikill gestagangurinn til Íslands þessi misserin því að það vilja flestir ræða græn orkumál við okkur. Sem formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins þá er þetta risastórt mál þar, öryggismál í Evrópu og orkumál Evrópu í dag, samtvinnað. Það spyr hver einasti gestur sem kemur hérna til landsins í dag út í þessi mál.

Við erum komin mjög langt í ferli, um 85% af þeirri orku sem við nýtum í dag á Íslandi er græn. Evrópusambandið er með um 15%, þannig að við erum í öfundsverðri stöðu með þetta. Samt finnst okkur þetta vera stórt verkefni til 2040, að vera kolefnishlutlaus og vera farin að framleiða það mikið af grænni orku að við getum orðið kolefnishlutlaus eftir 18 ár. Verkefnið í Evrópusambandinu hlýtur þá að vera ótrúlegt, að fara úr 15% upp í 100% í grænni orku á 20–30 árum.

Það hefur líka komið fram í sambandi við vindorkuna að kostnaðarhlutfallið hefur lækkað gríðarlega á síðustu tíu árum. Vindorkan er orðin mjög hagkvæm og í dag er hún væntanlega hagkvæmari en okkar ódýrustu kostir í vatnsafli á framleidda megavattstund, þannig að það mælir margt með henni. Mér finnst hafa skort töluvert á þessa umræðu og þetta samhengi hluta vegna þess að við erum alltaf á tiltölulega neikvæðum nótum í umræðu um þessi mál en erum kannski ekki að meta kosti og ókosti t.d. vindorku með þeim hætti sem við ættum að vera að gera. Þess vegna finnst mér það stórt skref núna sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar er að leggja til, að færa Búrfellslundinn inn í nýtingarflokkinn þannig að við getum farið að gera fyrstu tilraun. Ég tek undir þetta, enda stendur það í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar, og mér finnst líka gott í sjálfu sér að eignarhaldið sé þá hjá ríkinu og það sé Landsvirkjun sem standi fyrir þessu og geti þróað þetta samhengi hlutanna sem við erum að tala um. Það kom líka fram í orkustefnunefndinni á sínum tíma. Uppsett afl í vatnsafli í dag er væntanlega 2.100–2.200 MW. Ætli jarðvarminn sé ekki sirka 600–700? Þegar kemur að vindafli voru fyrstu hugmyndir sérfræðinga 100–150 þegar við vorum að ræða þetta í orkustefnunefnd á sínum tíma til að spila á móti, en þegar við vorum búnir að fara í gegnum umræðu um þetta í tvö ár var farið að tala um 500–1000 MW í vindafli til þess að auka nýtingu á kerfinu í heild sinni. Síðan ef það blæs mikið þá eigum við alltaf inni rafeldsneytið og aðra hluti til að tappa af kerfinu og ýmsa möguleika í tengslum við þetta.

Ég legg meiri áherslu á það í þessu máli að í staðinn fyrir að taka allan sinn málflutning út frá Kjalölduveitu þá eigi maður að spyrja um samhengi hlutanna sem er raforkukerfið, flutningskerfi raforku, vindorka, vatnsafl, jökulbráðnun. Mér fannst líka áhugavert í nefndarvinnunni í þessu máli að ef við værum að hanna vatnsaflsvirkjanir okkar í dag í Þjórsá fyrir austan þá værum við að gera það með öðrum hætti. Það hættir að safnast í jöklana eftir 1995 og þá fer jökulbráðnun að aukast og það kemur meira vatn sem við erum ekki að nýta að fullu. Það er að hluta til verið að bregðast við því með stækkun á þessum þremur virkjunum í Þjórsá sem er lagt til í þessu frumvarpið. En ég hygg að ef t.d. Fljótsdalsstöð hefði verið hönnuð fimm árum seinna þá hefði hún litið aðeins öðruvísi út en hún gerir í dag vegna þess að norðan jökla, Vatnajökuls, er mikið vatnsmagn sem verður ekki nýtt með sama hætti og við gætum gert ef það hefði kannski verið aðeins meiri geta í kerfinu, ef aflgeta virkjana hefði verið meiri, og síðan hefðum við getað nýtt kerfið á móti.

Þess vegna finnst manni eðlilegt, og ég tala sjálfur fyrir því, að í staðinn fyrir að hafa vindorkuna úti um allar trissur eða úti um allt, í sjónlínu, eins og við erum kannski að upplifa þegar við keyrum um Danmörku og Þýskalandi og víða um Evrópu, að við værum þá frekar með færri en stærri virkjunarstaði vindorku. Auðvitað er, eins og kemur fram í umræðu hér í þinginu, heppilegt að þetta sé nálægt tengivirkjunum og öflugum flutningslínum en síðan koma kannski inn önnur sjónarmið að einhverju leyti í þessa umræðu. Þetta er bara stór hluti af samkeppnishæfni lands og þjóðar og þess vegna ættum við vera að tala miklu meira um þessi mál og þetta samspil hlutanna. Verðmæti grænnar orku fer mjög svo vaxandi og eins og ég kom inn á eru varla til stærri málefni í Evrópu. Ef við tengjum saman öryggismál í Evrópu, orkumálin, loftslagsmálin og annað, þá verður þetta stóra málið næstu 10, 20, 30 árin. Og hvernig ætlum við að spila okkar hlut út í þessu máli og nýta jókerarna og allt það, vegna þess að möguleikar okkar eru gríðarlegir og umfram flestar aðrar þjóðir? Það er sagt að hér sé framleidd mikil orka og það er rétt, við erum langstærstu framleiðendur orku á hvert mannsbarn í einu landi, á ensku „per capita“. Við framleiðum helmingi meira en næststærsta þjóðin sem er Noregur, þjóðirnar nr. 3 og 4 í heiminum eru að framleiða um 30% af því sem við framleiðum á Íslandi. Þetta er stór hluti af lífskjörum á Íslandi, þ.e. að nýta jarðvarmann, framleiða raforku, og þetta er það sem skapar grunn.

Mín skoðun er sú að við höfum t.d. ekki metið af alvöru eftir fjármálahrunið Kárahnjúkastíflu og Fljótsdalsstöðina, álverið fyrir austan, hvaða áhrif þetta hefur haft sem ákveðinn grunnur í samfélagi okkar og síðan bara allur grunnurinn sem tengist raforkuframleiðslu, sem á bara eftir að vaxa og efla þjóðina. En við hljótum alltaf að gera þetta með sjálfbærum hætti þar sem er litið til þess að farið sé vel með umhverfið, félagslega hlutann og efnahagslega. Það verður alltaf krafa, enda vil ég meina að það séu engir umhverfissóðar í þinginu á Íslandi. Við erum öll að berjast fyrir umhverfið. Síðan kannski erum við komin í umræðu sem er í dag annars vegar umhverfismál og hins vegar loftslagsmál. Það er ekki alltaf sama umræðan þar, í hópunum sem eru fyrst og fremst að tala um loftslagsmálin og síðan umhverfismál. Það er ekki alltaf samasemmerki þar á milli í undirliggjandi umræðu.

Ég held satt að segja að þetta sé með betri málum sem hafa komið fram hér í vetur. Þetta er svo einfalt mál að allt mælir með því. Fyrst og fremst er í þessu máli verið að auka sveigjanleika kerfisins, sem við erum að byggja upp með aflgetunni, aukinni aflgetu, og sveigjanleika í kerfinu, spila á móti vindaflinu og öflugu flutningskerfi. Það er grunnurinn að því sem við erum að fást við með aukinni jökulbráðnun. Það kemur meira vatn, meira vatnsmagn. Fyrst og fremst eru kannski einhverjar klukkustundir í sólarhringnum sem við erum að reyna að fylla betur upp í. En stóra málið í stóra samhenginu er að nýtingin á raforkukerfi þjóðarinnar í heild sinni sé sem allra best og það er að komast út úr þessum 75% og setja okkur markmið, hvort sem er 80 eða 85%. Það er það sem við eigum að vera að ræða í þessu samhengi. Ég þakka fyrir góða umræðu og fyrir hafa fengið tækifæri til að koma að þessu máli sem er afbragðsgott.