Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[22:19]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp bara til að gera í örstuttu máli grein fyrir fyrirvara mínum við afgreiðslu frumvarpsins úr umhverfis- og samgöngunefnd. Ég styð málið og get tekið undir það sem hér hefur verið sagt um það gagn sem það getur gert í framtíðinni fyrir raforkuframleiðslu hér á landi. En ég gerði þó þann fyrirvara að taka ekki undir það álit meiri hlutans að gögn liggi fyrir sem styðji það að stækkunaráform Landsvirkjunar í virkjunum í Þjórsá séu arðbærar sem sjálfstæðar framkvæmdir. Ég vildi bara að það kæmi fram.

Að auki hefur verið fróðlegt að hlýða á umræðuna um þetta ágæta mál og ekki síst að fá hér svolítinn fyrirlestur frá hv. þm. Daða Má Kristóferssyni sem talaði af mikilli þekkingu um raforkuframleiðslu og þetta umhverfi sem við störfum í. Ég get tekið undir þau sjónarmið þingmanna, bæði Daða Más Kristóferssonar og Njáls Trausta Friðbertssonar, að að sjálfsögðu erum við með þessum breytingum hér að gera okkur betur kleift að jafna sveiflur í raforkukerfinu og það er mjög mikilvægt að það sé hægt. Það er líka mikilvægt að hægt verði í framtíðinni að nýta vindorku og vatnsorku til að jafna sveiflur og ég hygg að flestir hér inni séu sammála um það. Það er mjög mikilvægt líka að vera samtímis að auka uppsett afl í kerfunum og vonandi leiðir það til þess að við þurfum að virkja minna því að þá þurfum við að raska minna landi hér á landi. Eins og við vitum þá höfum við virkjað í raun alla langbestu kostina í vatnsafli og við vitum að fleiri virkjanir í vatnsafli sérstaklega getað kallað á stórkostlegt óafturkræft rask á náttúrunni, óafturkræfar afleiðingar og það viljum við helst ekki sjá. Ég hygg að flestir séu sammála því.

Það er eðli náttúruauðlindarinnar að vera ekki stöðug. Hún sveiflast eftir góðu eða slæmu vatnsári, eftir veðrum og vindum, bókstaflega. Þess vegna gerist það í lokuðu raforkukerfi eins og við erum með hér á Íslandi að þegar vatnsárið er slæmt, eins og stundum gerist og gerist reglulega, þá finnum við fyrir því og getum fundið fyrir því. Þess vegna er mjög mikilvægt að geta gripið til ráða sem vega á móti náttúrulegum sveiflum í kerfinu.

En ég ætla samt að fá líka að minnast á það við þetta tækifæri að eins og fram hefur komið við þessa umræðu þá erum við heldur ekki að nýta kostina sem myndu fylgja því að opna kerfið. Ég veit að hér er ég að opna á tiltölulega viðkvæma umræðu fyrir marga, en nefnt var hvernig Noregur hefur opnað sitt kerfi með sæstrengjum, t.d. til annarra landa. Ég held að áður en mjög langt um líður þá verði það verkefni okkar hér að hugsa það mál til enda og kanna það mál til enda. Þetta snýst líka um að selja verðmætustu eða eina verðmætustu vöru í heimi, sem er endurnýjanleg orka, og fá fyrir hana hæsta mögulega verð. Það er líka virðisauki í því. Þess vegna ber okkur hreinlega að hugsa málið í enn stærra samhengi til langrar framtíðar. Ég veit að það verður gert þó að það gerist kannski ekki hér í kvöld. En mig langaði til að nota tækifærið og minnast á að það er ekki náttúrulögmál að kerfið sé lokað, það er ákvörðun. Hins vegar erum við ofurseld náttúrunni með mjög margt í kerfinu en við höfum séð við því með hugviti og tækni sem er í heimsklassa og með því að gera fyrirtækjum kleift að auka uppsett afl munum við líka að nýta þessa orku betur. Ég tek undir með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni að það er mjög mikilvægt að nýta hvern einasta dropa sem í kerfinu er og koma honum til skila og við þurfum að finna allar leiðir til að gera það.