Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

sveitarstjórnarlög.

571. mál
[22:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um sveitarstjórnarlög, um íbúakosningar á vegum sveitarfélaga.

Með frumvarpinu er lagt til að einfalda íbúakosningar á vegum sveitarfélaga um einstök málefni, sameiningu og þegar kosið er til nefndar fyrir hluta sveitarfélags. Jafnframt er lagt til að mögulegt sé að halda rafrænar íbúakosningar á vegum sveitarfélaga.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar árétta sérstaklega: Að mati meiri hlutans er frumvarpið framfaraskref í átt að aukinni lýðræðislegri þátttöku íbúa sveitarfélaga sem meiri hlutinn telur mikilvægt að vinna að. Við umfjöllun málsins komu þó fram athugasemdir varðandi fjármögnun á skyldu sem er lagt til að Þjóðskrá Íslands hafi við gerð kjörskrár fyrir atkvæðagreiðslu, sbr. 2. málslið 3. mgr. a-liðar 5. gr. (133. gr.). Af þessu tilefni áréttar meiri hlutinn að Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka gjald af sveitarfélögum vegna gerðar rafrænnar kjörskrár fyrir íbúakosningar, samanber 3. mgr. b-liðar 5. gr. (134. gr.).

Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til breytingar á frumvarpinu: Í fyrsta lagi er lögð til breytingar er varðar kosningarétt. Í núgildandi 1. málslið 3. mgr. 38. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, kemur fram að kosningarrétt í kosningum til nefndar sem starfar fyrir hluta sveitarfélags hafi þeir sömu og eiga kosningarrétt samkvæmt lögum um kosningar. Þá er í 1. málslið 3. mgr. a-liðar 5. gr. (133. gr.) frumvarpsins kveðið á um að kosningarrétt í íbúakosningum sveitarfélaga hafi íbúar viðkomandi sveitarfélags. Núgildandi kosningalög, nr. 112/2021, gera hins vegar ráð fyrir því að kosningarréttur taki breytingum með hliðsjón af því hvort um er að ræða kosningar til sveitarstjórna eða Alþingis, kjör forseta Íslands eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í ljósi framangreinds og tengsla íbúakosninga við sveitarstjórnir telur meiri hlutinn því rétt að leggja fram breytingartillögu með það að markmiði að árétta að í íbúakosningum sveitarfélaga skuli að jafnaði taka mið af kosningarrétti í sveitarstjórnarkosningum

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar kjörskrár. Við umfjöllun málsins komu fram ábendingar frá landskjörstjórn um að í 1. málslið 4. mgr. 38. gr. og 5. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga væri enn miðað við að Þjóðskrá Íslands afhenti sveitarstjórnum kjörskrárstofna. Núgildandi kosningalög nr. 112/2021, geri hins vegar ekki ráð fyrir þessu heldur er nú gert ráð fyrir að stofnunin afhendi kjörskrár. Vegna þessa er það mat meiri hlutans að tilefni sé til að leggja til breytingar til að samræma ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og kosningalaga, nr. 112/2021.

Þá er í þriðja lagi lögð til breyting er varðar aðkomu landskjörstjórnar. Þrátt fyrir að frumvarpinu sé ætlað að einfalda íbúakosningar í sveitarfélögum telur meiri hlutinn afar mikilvægt að skýrar reglur gildi um íbúakosningar til að traust ríki um framkvæmdina. Til að tryggja að svo megi verða er það því mat meiri hlutans að mikilvægt sé að landskjörstjórn hafi aðkomu að setningu reglugerðar samkvæmt 4. mgr. a-liðar 5. gr. (133. gr.) frumvarpsins og leggur til breytingu þar að lútandi.

Að lokum eru lagðar til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Bjarni Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Orri Páll Jóhannsson.