Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

569. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, um framlengingu bráðabirgðaákvæða.

„Tímabundin hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna kostnaðar sem fellur til við rannsóknir og þróun verður óbreytt.“ Þetta stendur skýrum stöfum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fjallað er um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Þess vegna kom það nýsköpunarsamfélaginu á Íslandi í opna skjöldu þegar fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram frumvarp um að bráðabirgðaákvæði í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki yrðu framlengd um aðeins eitt ár og endurgreiðsluhlutfallið hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum lækkað, enda hafði fjöldi fyrirtækja þegar gert fjárfestingar- og vaxtaráætlanir í samræmi við hlutföll núgildandi laga sem gefin voru fyrirheit um að yrðu framlengd óbreytt í stjórnarsáttmála.

Það er fagnaðarefni að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggi til að horfið verði frá þessari skyndilegu breytingu á endurgreiðsluhlutfallinu — hér eiga hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar og aðrir nefndarmenn stjórnarmeirihlutans hrós skilið fyrir að standa í lappirnar — en 1. minni hluti brýnir fyrir ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum að sýna stefnufestu og forðast allan hringlandahátt í stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki og atvinnulífið yfirleitt. Nægur er óstöðugleikinn fyrir alþjóðageirann og hugvitsdrifnar atvinnugreinar í hinu sveiflukennda krónuhagkerfi. Það er verkefni löggjafans og stjórnvalda að vega upp á móti þeirri óvissu og þeim rekstrarlegum áskorunum sem henni fylgja með því að skapa fyrirsjáanlegt, stöðugt og samkeppnishæft laga- og skattumhverfi. Slíkt verður ekki gert með því að sveifla hlutföllum og viðmiðunarfjárhæðum í lögum fram og til baka eftir því hvernig vindar blása.

Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að skýra og skerpa á reglum um skattafrádrátt vegna nýsköpunar til að girða fyrir misnotkun á úrræðinu. Skatturinn hefur bent á að ýmis dæmi séu um að almennur rekstrarkostnaður sé talinn ranglega fram sem rannsóknar- og þróunarkostnaður og kallað eftir því að lögfest verði refsiviðurlög til að skapa varnaðaráhrif gegn misnotkun á úrræðinu og sporna gegn óréttmætum endurgreiðslum.

Ég held að það sé alveg einboðið að við horfum til slíkra lagabreytinga, helst bara strax í haust um leið og núgildandi endurgreiðsluhlutfall verði fest varanlega í sessi og ég ítreka að mér finnst mikilvægt að þetta gerist í haust, á næsta löggjafarþingi. Ég held að það verði breiður stuðningur við þetta hér í þinginu.