Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

569. mál
[23:29]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Hvort er nýsköpun útgjöld eða fjárfesting? Um það eru skiptar skoðanir og margir halda því fram að þegar við setjum peninga í nýsköpun séum við að fjárfesta í framtíðinni. Þannig held ég að við getum alveg litið á það. Ég hafði svo sem haft væntingar um það eftir að hafa lesið stjórnarsáttmálann og áttað mig á því að það var verið að horfa til þess í stjórnarsáttmálanum að gera þá styrki varanlega sem gefnir voru í Covid 2020, því að samkvæmt umsagnaraðilum höfðu þær breytingar sem gerðar voru á árinu 2020 afgerandi áhrif á rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja. Fyrir Covid var þessi styrkur 20% en var hækkaður upp í 35% og það hafði úrslitaþýðingu fyrir mörg þessi fyrirtæki.

Við fengum til okkar umsagnaraðila sem fóru yfir það með okkur hversu mikils virði þessir styrkir væru og hversu mikla hjálp þeir hefðu veitt, en líka bara hvaða afleiðingar það gæti haft ef farið yrði eftir því sem stóð í upphaflegu lögum, að lækka þetta úr 35% í 30%. Fyrir lítil fyrirtæki sem eyða mestu af sinni innkomu í launakostnað gæti það haft þau áhrif að tapa kannski þremur til fjórum störfum. Það getur auðvitað bara ráðið því hvort fyrirtækin lifi eða deyi að hafa yfir að ráða mannauð til að vinna að þeirri nýsköpun sem þetta fyrirtæki vill ná fram. Við fengum fram mjög eindregna afstöðu frá þessum aðilum sem veittu umsögn, margar hverjar mjög vandaðar. Ég hafði mjög gaman af því að lesa margt af því sem þar kom fram. Í einni slíkri segir m.a., með leyfi forseta:

„Fyrir hverjar 100 krónur sem fyrirtæki fjárfesta í [rannsóknum og þróun] fara 50 kr beint til ríkissjóðs í formi skatta á launatekjur og tryggingagjalds. Rúmu ári síðar endurgreiðir ríkissjóður fyrirtækinu vegna fjárfestingarinnar 25–35 kr og er þar af leiðandi alltaf með 15–25 kr í nettóhagnað. Arður hins opinbera skilar sér því áður en til fjárfestingar RSK kemur.“

Ríkið er því alltaf búið að tryggja sig áður en það veitir þessa rannsóknar- og þróunarstyrki þannig að menn eru svo sem bara mjög vel tryggðir í þessu.

Virðulegur forseti. Mér finnst alltaf gott að sjá einhverjar tölur á bak við það sem verið er að leggja fram. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er talað um hvaða þýðingu það hefði haft að fara til baka í stöðuna eins og hún var 2020 þegar þetta kostaði 7,9 milljarða. En ef þetta hefðu verið 30% þá kostaði þetta 10,3 þannig að viðbótin væri þá 2,4 milljarðar. Nú er búið að taka ákvörðun um breytingartillögu um 5% í viðbót og það mun væntanlega bæta við tölu upp á 1,4 milljarða þannig að niðurstaðan gæti þá orðið 11,7 milljarðar í heildina. Það er bara gott að sjá slíka tölu. Þetta er há tala, vissulega, en miðað við það frumvarp sem var verið að ræða hér á undan — við vorum að ræða hér niðurgreiðslur vegna virðisaukaskatts á kvikmyndaframleiðsla á Íslandi — þá lágu bara ekki fyrir neinar tölur. Hér erum við þó alla vega með einhverja áætlun sem er ekkert víst að standist en hún er þó alla vega til staðar sem viðmið þannig að hægt sé að átta sig á þessu, hvaða þýðingu þetta getur haft. En um leið getum við þá áttað okkur á því hvað þetta getur skaffað okkur í kassann miðað við það sem ég las upp úr þessari umsögn um alla vega 15–25 kr. sem væru þá nettótala í ríkissjóð eða 15–25%, sem skiptir bara verulegu máli.

Ég hefði auðvitað, miðað við þann stjórnarsáttmála sem lá fyrir, viljað um að halda þessu óbreyttu. En ég vil þakka meiri hlutanum í nefndinni fyrir að hafa haldið þessu til streitu og náð til baka þessum 5% og vildi því bara styðja málið eins og það kemur fyrir. Það er ekki mjög stór biti fyrir stórfyrirtæki að kyngja því að þetta lækki úr 1.100 milljónum í milljarð. Það er ekki stærsti kostnaðurinn í þessu. En þetta hjálpar sannarlega minni fyrirtækjum við að halda fyrirtækjunum gangandi, ráða til sín fólk sem hefur yfir að ráða þekkingu sem er svo nauðsynleg fyrir okkur. Þessi iðnaður og þessi nýsköpun hefur verið kölluð fjórða stoðin og við eigum auðvitað að hlúa að henni eins og við getum. Það skiptir okkur máli að við séum ekki bara að hugsa hér um sjávarútveg sem einhverja útflutningsgrein eða ferðamannaiðnað, sem er nú tiltölulega að greiða lág laun, heldur að styðja við og standa með atvinnugreinum sem geta þá verið samkeppnishæf við önnur lönd hvað varðar laun. Þannig að mér finnst þetta bara af hinu góða og ég styð þetta með glöðu geði.