Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

594. mál
[23:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (sýndareignir o.fl.).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Breytingarnar byggjast annars vegar á þeim breytingum sem alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn Financial Action Task Force (FATF) gerði á aðferðafræði sinni og tilmælum um sýndareignir frá árinu 2019 og hins vegar á þeirri reynslu sem komin er á beitingu laganna.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og okkur bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Íslensk stjórnvöld hafa mótað sér þá opinberu stefnu að íslensk löggjöf skuli á hverjum tíma innihalda fullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfylla þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til varna gegn slíkum brotum. Liður í því er að endurskoða löggjöf með reglubundnum hætti bæði með tilliti til alþjóðaskuldbindinga og reynslu af beitingu löggjafar. Meiri hlutinn telur frumvarpið mikilvægt með vísan til þessara sjónarmiða.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingar á frumvarpinu í ljósi umsagna og annars samráðs. Í fyrsta lagi er um að ræða tilteknar breytingar sem snúa að notkun hugtaka og orðalagi. Í öðru lagi er lagt til að gerð verði krafa um að aðili sem hyggst bjóða upp á þjónustu tengda sýndarfé hérlendis stundi starfsemi frá fastri starfsstöð hér á landi til að tryggja að Seðlabanki Íslands geti með fullnægjandi hætti sinnt eftirlit með starfseminni. Í þriðja lagi er lögð til breyting er lýtur að hæfisskilyrðum þannig að sambærilegar reglur gildi um sambærilega aðila á fjármálamarkaði. Um þetta vísa ég til greinargóðrar umfjöllunar í nefndaráliti og um aðrar breytingar.

Að öllu þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum.

Undir álit meiri hlutans rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson og Steinunn Þóra Árnadóttir. Sem sagt, næstum fullt hús.