Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[23:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (fjöldatakmörkun rafmagnsbifreiða o.fl.). Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Annar minni hluti styður efni frumvarpsins og lítur á skattaívilnanir vegna rafmagnsbíla sem mikilvægt verkfæri til að hraða útfösun jarðefnaeldsneytis þótt slíkur stuðningur renni að mestu til efri tekjuhópa.

Til að hraða rafbílavæðingunni skiptir sérstaklega miklu að liðka fyrir rafvæðingu bílaleiguflotans en bílaleigufyrirtæki hafa að jafnaði keypt hátt í helming allra nýskráðra bíla á Íslandi undanfarin ár. Þetta eru bílar sem enda á eftirmarkaði og það gefur augaleið að kauphegðun þessara fyrirtækja hefur gríðarleg áhrif á samsetningu bílaflotans á Íslandi í heild. Samfylkingin hefur líka kallað eftir því að það verði tekin stefnumarkandi ákvörðun um að hætta nýskráningu fólksbíla sem ganga fyrir bensíni og dísilolíu eigi síðar en árið 2025 og að ýtt verði undir uppbyggingu hleðslustöðva til samræmis við það.

Til að draga úr losun frá vegasamgöngum skiptir þó einna mestu að liðka fyrir fjölbreyttum ferðavenjum, draga úr bílaumferð almennt, þétta byggð og efla almenningssamgöngur. Í þessu samhengi vill 2. minni hluti brýna fyrir stjórnarmeirihlutanum að virða samning um eflingu almenningssamgangna sem ríkið og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér árið 2012 en uppsafnaðar vanefndir ríkisins á þeim samningi nema um 1,5 milljörðum kr. Í stað þessarar vanfjármögnunar gagnvart almenningssamgöngum gætu Íslendingar tekið sér ríkisstjórn jafnaðarmanna, frjálslyndra og græningja í Þýskalandi til fyrirmyndar sem brást við hækkandi eldsneytiskostnaði vegna Úkraínustríðsins með því að niðurgreiða almenningssamgöngur í stórum stíl og veita stórfelldan afslátt af fargjöldum í lestir og strætisvagna.

Að því sögðu þá styð ég eindregið þetta frumvarp.