Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í umfjöllun um vindorku segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Í fyrirliggjandi tillögu er í fyrsta sinn að finna virkjunarkosti í vindorku. Í lögunum er hvergi vikið berum orðum að þessari tegund orkuöflunar og hefur verið ágreiningur um það hvort lögin taki til vindorkunnar. Að mati meiri hlutans er alveg skýrt að virkjunarkostur sem felur í sér virkjun vindorku og er með uppsett rafafl 10 MW eða meira fellur undir gildissvið laganna.“

Hér kemur fram að það er alveg skýrt að vindurinn á heima í rammanum en samt þarf að skýra lagaumgjörðina. Hér vantar að mínum dómi rökstuðning. Þessi framsetning um að vindurinn eigi heima í rammanum byggir í raun á engu. Auk þess kemur ekkert fram um hvaða þýðingu þetta hefur fyrir þessa mikilvægu og umhverfisvænu orkuöflun framtíðarinnar.

Herra forseti. Mér finnst þessi framsetning því miður vera óheppileg. En ég tek undir það sem sagt hefur verið hér að það er afrek að þetta mál skuli vera komið í þingsal til atkvæðagreiðslu.