Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Já, þetta er mikilvægur dagur fyrir okkur hér í þinginu. Þetta er risamál og ég fagna því að við skulum loks eftir þennan tíma fá tækifæri til þess að afgreiða 3. rammann héðan af okkar hálfu. Ég vil undirstrika það að á endanum er það pólitísk ákvörðun. Við erum með ákveðinn grunn og við erum með ákveðnar forsendur en síðan er það okkar þingmanna hér inni að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvernig við viljum haga rammanum. Það vald verður ekki frá okkur tekið. Þá skiptir máli að við höfum það í huga hvernig við reynum að ná jafnvægi við nýtingu og náttúruvernd. En við þurfum líka að huga að hagsældinni, áframhaldandi hagsæld fyrir allt samfélagið okkar, en huga líka að loftslagsmálum. Þannig að þetta er snúið verkefni. Við þurfum að vanda okkur. Það sem hryggir mig hér er að mér finnst ekki hafa tekist að haga vinnubrögðum með þeim hætti að ferlið og ramminn sem við ræðum hér séu nægilega trúverðug þegar kemur til þeirra þátta sem ég gat hér um áðan. (Forseti hringir.) Þetta snýst fyrst og fremst um pólitísk hrossakaup. Það er alveg augljóst mál eftir þetta, og (Forseti hringir.) kannski er sá partur sem fær mestu verndina í gegnum rammann bara ríkisstjórnin sjálf, (Forseti hringir.) því að það er niðurstaðan úr þessu öllu; (Forseti hringir.) það er að halda ríkisstjórninni saman, ekki að huga að jafnvæginu milli nýtingar og náttúru.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir aftur ræðutímann sem er takmarkaður í umræðum af þessu tagi.)