Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er nú ein af fáum núverandi þingmönnum sem tók þátt í að samþykkja 2. áfanga rammaáætlunar 2013 og var þá sökuð um pólitísk hrossakaup eins og nú. Mér er mjög annt um þetta stjórntæki sem rammaáætlun er og nú hefur 3. áfangi verið lagður fjórum sinnum fram af fjórum ráðherrum og Alþingi ekki lánast að afgreiða málið. Það sem við erum að gera hér, það sem meiri hlutinn er að leggja til, er að stækka biðflokk rammaáætlunar. Nú skal ég upplýsa hv. þingmenn: Frá 2013 hafa ekki neinir kostir í biðflokki verið virkjaðir, ekki neinir, enda er það ekki hægt. Hér er talað eins og verið sé að færa ákveðnar virkjunarhugmyndir í nýtingarflokk sem í raun er verið að setja í biðflokk og ég vil minna hv. þingmann á að hér er líka verið að færa hugmyndir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk, hugmyndir sem hafa svo sannarlega verið umdeildar, eins og hugmyndin um Skrokköldu inni á hálendinu þar sem við mörg viljum sjá þjóðgarð, hugmyndir um neðri hluta Þjórsár, (Forseti hringir.) sem hafa verið mjög umdeildar í samfélaginu. Það sem við erum að gera hér er að afgreiða 3. áfanga rammaáætlunar í smærri skrefum (Forseti hringir.) en verkefnisstjórn lagði til og a.m.k. er það mikilvægt skref fyrir okkur sem teljum að þetta sé í raun mikilvægt stjórntæki til að tryggja jafnvægi verndar og nýtingar (Forseti hringir.) og ég mun styðja tillögur meiri hlutans.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir enn á ræðutímann.)