Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:36]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Niðurstaðan í þessu máli er áfangi á miklu lengri leið í náttúruvernd, áfangi þar sem Skrokköldu og neðri hluta Þjórsár er komið úr nýtingarflokki í biðflokk. Stóru fréttirnar eru samt auðvitað þær að tvö stór vatnasvið bætast við í verndarflokk, Skjálfandafljót og Skaftá. Þessara vatnasviða bíður nú að bætast við í flokk friðlýstra rammaáætlunarsvæða sem sá sem hér stendur gerði stórátak í að friðlýsa á síðasta kjörtímabili. Hvað Héraðsvötn og Kjalöldu áhrærir er mér auðvitað, líkt og öðrum náttúruverndarfólki, sárt að þurfa að leika þann biðleik sem hér er tefldur, en hér er einungis um frestun á ákvörðun að ræða en alls ekki dauðadóm yfir þessum svæðum, líkt og haldið hefur verið fram. Virkjunarmál eru eitt umdeildasta mál undanfarinna áratuga í samfélaginu og rammaáætlun er einfaldlega mál þar sem enginn verður fullkomlega sáttur. Mál sem velkst hefur um hér í meðförum Alþingis í sex ár (Forseti hringir.) og sá sem hér stendur ber vissulega sína ábyrgð þar. Þá ábyrgð hyggst ég axla hér í dag, þá ábyrgð að tryggja að rammaáætlun lifi áfram.