Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Rammaáætlun snýst ekki bara um vernd, hún snýst líka um nýtingu auðlindanna. Hér erum við skólabókardæmi um pólun samfélagsins. Þessi atkvæðagreiðsla sem fer hér fram ætti eiginlega bara að vera kennd í félagsfræði uppi í háskóla um pólun samfélagsins, vegna þess að þeir sem ekki eru alfarið með öllum kostum til friðunar eru gjörnýtingarsinnar og þeir sem styðja meiri hlutann eru búnir að yfirgefa faglegt mat á niðurstöðunni. Þetta snýst um að vera faglegur eða pólitískur. Þetta snýst um gjörnýtingu eða náttúruvernd.

Ég er ekki mættur hingað bara til að greiða atkvæði um vernd. Ég er mættur hingað eins og lög gera ráð fyrir til að greiða atkvæði um vernd, um bið og um nýtingu. Um það snýst þetta verkefni. Þeir sem láta sig einhverju varða að rammaáætlun lifi taka þátt í málamiðlun til að leiða fram niðurstöðu, alveg eins og við erum að gera hér með meirihlutaálitinu. Hinir eru að hugsa um eitthvað allt annað. Ég ætla að halda því fram að þeir séu flestir að hugsa um sjálfa sig og þeir eru ekki trúverðugir þegar þeir tala í hinu orðinu um það að þeim þyki mikilvægt að rammaáætlun lifi.