Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við fáum faglegt mat í hendurnar hingað til þingsins, faglegt mat sem byggir einmitt á því að náttúran skuli njóta vafans. Faglegt mat er að það eru ákveðnir kostir þarna sem eiga að fara í vernd. Það er alveg skynsamlegt að stækka biðflokkinn en þá gerum við það að sjálfsögðu úr verndarflokki í biðflokk, því að eins og hv. þm. Daði Már Kristófersson fór vel yfir í gær, hvernig matið á kostunum fer fram, þá þurfum við að taka dálítið heildstæða sýn á rammaáætlunina. Það getur valdið því að við förum varfærnu leiðina og þurfum að skoða betur þegar heildarsýnin kemur í ljós. En það er búið að fara í einstaka smáatriði varðandi þau atriði sem eiga að fara í vernd. Það breytist ekkert. Það er gjörsamlega tilgangslaust að færa eitthvað sem er búið að ákveða á faglegum forsendum að eigi að vera í vernd, að við þurfum eitthvað að vera með varúðarsjónarmið og segja: Nei, við ætlum að færa það í bið. Það er alger óþarfi. Ég skil því ekki þann málflutning (Forseti hringir.) sem er búinn að vera hérna hjá stjórnarliðum. Það er mjög einfalt að taka (Forseti hringir.) faglega ákvörðun um þann flokk hérna á þingi og halda þessum kostum í vernd.