Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Innviðaráðherra hvatti okkur öll til að líta í eigin barm, en ég heyrði hann ekki nefna t.d. sinn þátt í því að 3. áfangi rammaáætlunar fór allt of seint af stað þegar hann var ráðherra. Hann sat á málinu í eitt og hálft ár. Hans fyrsta verk í ráðuneytinu var hins vegar að koma í veg fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, sem gerir einmitt Landsvirkjun kleift að keyra þennan áróður fyrir Kjalölduveitu í gegnum þingið. Hver á að skoða sinn innri mann hér í salnum? Nú eða ríkisstjórnin 2017–2021 sem batt saman rammaáætlun, hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun svo föstum böndum að þau fóru öll þrjú saman í tætarann. Það eru fjögur glötuð ár í þessu ferli á þeirra ábyrgð. Faglegu rökin fyrir því að færa þessi tvö svæði úr vernd í bið eru engin, við skulum hafa það alveg á hreinu. Með Kjalölduveitu er látið undan dylgjum Landsvirkjunar um að það hafi verið ólöglega staðið að flokkuninni. Ráðuneytið er búið að hrekja þær. Með Héraðsvötnin er verndargildið (Forseti hringir.) ótvírætt og það er hlustað á vælið í Kaupfélagi Skagfirðinga af því að það vill fá sína virkjun. Ramminn lifir (Forseti hringir.) með þessu, heyrist frá ráðherrum allra stjórnarflokkanna. (Forseti hringir.) Hver var að hóta því að drepa hann? Það var enginn að því nema kannski virkjunarsinnarnir í ríkisstjórninni. (Forseti hringir.) Flokkurinn sem einu sinni kenndi sig við náttúruvernd má núna átta sig á því að það skiptir ekki bara máli hver stjórnar (Forseti hringir.) heldur hverjum er stjórnað með. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (BÁ): Forseti verður að minna á að ræðutíminn er afar takmarkaður þegar þingmönnum er gefinn kostur á að taka til máls um atkvæðagreiðslu og biður þingmenn að virða það. Það á jafnt við um alla.)