Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[11:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Stjórnarliðar snúa öllu á haus. Þingflokksformaður Vinstri grænna talar eins og það að færa kosti úr verndarflokki yfir í biðflokk sé einhvern veginn gert í þágu umhverfisverndar. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi. Þetta er auðvitað fjarstæðukennt og það sjá allir. Ráðherrar tala svo eins og hrossakaupin í umhverfis- og samgöngunefnd, þetta snubbótta og illa rökstudda meirihlutaálit sem er lagt hérna fram á lokadögum þingsins, afgreitt út á harðaspretti, sé einhvers konar lífsbjörg fyrir ferlið í heild, fyrir rammaáætlunina. En eins og hv. þm. Andrés Ingi kom inn á þá er þetta alveg ofboðslega afhjúpandi málflutningur. Það sem stjórnarliðar eru raunverulega að segja, það sem þau eru í rauninni að viðurkenna er að það er ásetningur freku kallanna, kannski ásetningur hörðustu virkjunarsinnanna, að drepa rammaáætlun, halda henni í gíslingu ef þeir fá ekki það sem þeir vilja. Ég hafna þessum málflutningi og mun að sjálfsögðu standa með faglegri nálgun, faglegum rökum hér í dag og eðlilegu jafnvægi milli verndar og nýtingar.