Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég kýs með náttúrunni, sagði hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson. Mig grunar að mjög margir kjósendur hafi talið sig vera að greiða atkvæði með náttúrunni þegar þau kusu í síðustu kosningum og þarsíðustu alþingiskosningum. Ég ætla bara að vera einlæg. Ég skil það að í stjórnarsamstarfi þurfi að gera málamiðlanir. Ég skil það þó að stundum sé það erfitt og að þungar ákvarðanir geti verið teknar. Ég hef hins vegar alltaf skilið málamiðlun sem svo að þú komir til móts við gagnaðilann og fáir eitthvað í staðinn. Ég verð bara að segja að eftir síðasta kjörtímabil þá var margt sem ég skildi ekki við þetta stjórnarsamstarf. Ég skildi ekki hvers vegna Vinstri græn væru að yfirgefa öll sín prinsipp. Ég hugsaði með mér: Já, ókei, það hlýtur að vera fyrir umhverfismálin. Það hljóta að vera umhverfismálin.