Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á áðan þá á það sama hér við, við erum ekki að taka upp fyrri ákvarðanir Alþingis af því að ferlið, hið faglega ferli sem því á að tengjast, hefur ekki farið fram og við erum að hnykkja á því að það þurfi að skýra það betur. En ég vil líka benda á, og það kom skýrt fram fyrir nefndinni frá íbúum Vestfjarða og fulltrúum Vestfjarða og fleirum, að Alþingi hefur líka greitt áður atkvæði um það að orkumál og byggðaþróun á Vestfjörðum eigi að vera í forgangi og því er mikilvægt að við svörum því áður en við förum að breyta einhverju. Ég er ekki að segja að Hvalá sé lykillinn að því heldur gefur þetta okkur tíma til að skoða þau mál heildstætt og þá höfum við þessa endurskoðun á lögunum. Því stend ég með þeirri tillögu sem við höfum lagt fram hér og segi því nei við þessari og tel mig ekki þurfa að tilkynna það hér að ég standi með náttúrunni, sem ég geri að sjálfsögðu.