Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

332. mál
[12:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Fagleg niðurstaða verkefnisstjórnar rammaáætlunar var að vernda Kjalölduveitu og Héraðsvötn. Þessi svokallaða málamiðlun ríkisstjórnarflokkanna snýr að því að hætta við þá ákvörðun, ekki á faglegum rökum heldur pólitískum, og taka þessar náttúruperlur úr vernd í biðflokk. Verðmætin, forseti, sem glatast — það er ekki hægt að sjá annað en að þetta sé bara fyrsta skrefið í átt að því að virkja meira. Það er hættan. Það eru áhyggjurnar af því þegar þú getur tekið úr vernd yfir í bið á þennan hátt án nokkurra faglegra raka. Auðvitað eru það áhyggjurnar. Verðmætin sem glatast við virkjunarframkvæmdir eru bara ómetanleg og breytingarnar og raskið sem verður á landsvæðinu eru óafturkræfar. Að forgangsraða hagnaði og hagsmunum stórfyrirtækja fram yfir hagsmuni náttúrunnar er stórkostlega mikil skammsýni. Það er það sem við erum að gera í dag. Ég segi já, auðvitað eigum við að vernda þessi landsvæði og auðvitað eigum við ekki að gera málamiðlanir í pólitískum hrossakaupum.

(Forseti (BÁ): Þingmaðurinn segir?)

Já.